148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Hugtök á borð við sveltistefnu, stórsókn, tengsl við 2% og sanngirnisgleraugun — þetta er allt hráefni í stórskemmtilega, eða a.m.k. áhugaverða, umræðu. Ég ætla í ljósi þess að við erum búin að bindast samkomulagi um að keyra þetta mál áfram eins og hægt er að láta þá umræðu bíða og einhenda mér í tiltekin mál sem ég potaði í í fjárlagafrumvarpinu.

Mig langar samt til að byrja á því að segja eitt. Þrátt fyrir stuttan tíma sem okkur gefst í þessa umræðu, virðulegi forseti, hugnast mér vel þetta fyrirkomulag. Ég er ánægð með það að hér eru þingmenn í bílstjórasætinu og ráðherrarnir, svona mestmegnis, sitja og hægt er að kalla þá til. Ég vona að þetta verði upphafið, að við náum þessu. Mér þykir þetta skemmtilegri pólitísk umræða, hún skilar meiru. Það er mitt mat, svo að því sé til haga haldið.

Mig langar að byrja á því að beina sjónum að utanríkismálum með hæstv. ráðherra í salnum. Fyrst aðeins að stjórnarsáttmálanum. Þar er ekkert um hagsmuni Íslands vegna samskipta við Evrópusambandið en hins vegar tiltekið að gæta þurfi vel að hagsmunum Íslands við úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta er vissulega mikilvægt, enda eru Bretar ein okkar stærsta viðskiptaþjóð. En óháð tilfinningum stjórnvalda í garð Evrópusambandsins er það staðreynd, og líka með fullri virðingu fyrir Bretum, að viðskiptasamband Íslands við Evrópusambandið er nokkrum sinnum mikilvægara í þeim samanburði sé litið til talna. Mér hefði því þótt viðeigandi að splæsa a.m.k. eins og einni setningu á það mikilvægi fyrst verið er að tala í sáttmálanum um mikilvægi utanríkisviðskipta á annað borð. Látum það vera.

Í utanríkismálakaflanum, ég er enn í sáttmálanum, er vissulega nefnt að eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands sé að sinna framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið vel. Það hlýtur því samkvæmt þessu að vera forgangsverkefni ráðuneytisins að leggja ríka áherslu á innleiðingarmálin. Þess sér vissulega merki í markmiðasetningu fjárlaganna þar sem segir að efla eigi hagsmunagæslu Íslands við mótun EES-löggjafa og innleiða allar reglur EES-samningsins tímanlega svo að tryggt sé að íslenskt atvinnulíf búi alltaf við sömu reglur og samkeppnisaðilar á EES-markaði. Það er eins og við vitum að ef Ísland stendur sig ekki vel í innleiðingum þýðir það að íslenskir ríkisborgarar njóti ekki að fullu kosta hins innri markaðar.

Þegar kafað er ofan í kafla utanríkismála fjárlaga þá sýnist manni að þrátt fyrir annars vegar fögur fyrirheit í stjórnarsáttmálanum og hins vegar í markmiðasetningu í fjárlagafrumvarpinu sjálfu virðist ríkisstjórnin ekki ætla sér að setja aukinn kraft í að uppfylla þessar skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum og hvað þá að bæta í þegar kemur að eftirfylgni og hagsmunagæslu, a.m.k. ekki ef marka má þau orð sem fallið hafa áður, að til þess vanti fjármuni.

Í utanríkismálakafla fjárlaga er hins vegar gert ráð fyrir 62 millj. kr. framlagi á ári í þrjú ár vegna Brexit. Ég sé ekki betur en það sé nánast sama fjárhæð og er eyrnamerkt í EES-samstarfið. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ætlar því samkvæmt þessu að setja ríflega 60 millj. kr. á ári í að styðja — eða ég þarf eiginlega að fá að spyrja hæstv. ráðherra í hvað sá peningur á að fara umfram það sem almennt er að utanríkisstefnan sinni og hefur til þess fjármagn, af hverju það er sá mikli áhugi þar, og myndi vilja rökstuðning fyrir þeirri forgangsröðun. Það hefur sannarlega verið tilfinning mín að a.m.k. ein af ástæðum þess að við erum eftirbátar annarra ríkja í innleiðingu reglugerðanna á grundvelli EES-samstarfsins sé fjárskortur. Það er eitt. Mér þætti vænt um að fá þann rökstuðning.

Í annan stað langar mig að beina sjónum að ferðaþjónustunni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru áform um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu lögð til hliðar en aðrar leiðir kannaðar. Þar er sérstaklega nefndur möguleiki á að skoða álagningu á komu- eða brottfarargjald. Reyndar segir líka að gistináttagjald sem á að færast yfir til sveitarfélaga á kjörtímabilinu eigi að verða breytt þannig að það verði hlutfallslegt. Í mínum skilningi er það ákveðinn virðisaukaskattur, en allt í lagi. Vissulega er síðan í stjórnarsáttmála talað um að marka eigi langtímastefnu í ferðaþjónustu. Þetta styttist í að verða ansi þreytt tilkynning, að við séum alveg við það að fara að móta stefnu í þjónustunni. Svo á líka að gera margt. Það á að styðja myndarlega við rannsóknir og það á að byggja upp innviði og landvörslu sem er vel, meta þarfir og ljúka við greiningar o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég er að verða búin með tímann. Þetta er ekki gott.

Ég verð samt að fara aðeins yfir og klára spurninguna. Sá tími sem liðinn er sem Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) hefur verið við völd hefur einkennst af miklum vandræðagangi varðandi gjaldtökuna. Mig langar að spyrja: Er það svo (Forseti hringir.) að ferðaþjónustan, undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar, verði dæmi um enn eina undirstöðuatvinnugreinina sem byggir á (Forseti hringir.) auðlindum íslenskrar þjóðar (Forseti hringir.) án þess að fyrir afnot af þeirri auðlind komi sanngjörn greiðsla til almennings, eigenda?