148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er alveg sammála því að það er mikilvægt að huga að þessum viðskiptasamböndum hvar sem þau eru og efla. Mig langar þó að hnykkja aðeins betur á spurningu minni. Hæstv. ráðherra segir að þessi fjárhæð, nýja fjárhæð, þessi sérstaki liður 62 milljónir á ári, sé til viðbótar við fjármuni sem hafi þegar verið ráðstafað. Það er alveg eðlilegt. Maður skyldi ætla að það sé hlutverk utanríkisráðuneytisins og fjármagnsins sem þangað er beint að bregðast einmitt við þeim aðstæðum sem uppi eru hverju sinni. Þannig að aftur spyr ég og þá með tilliti til innleiðingarhallans sem við búum við og hefur verið gagnrýndur mikið af okkar viðskiptaaðilum annars vegar og kemur hins vegar niður á hagsmunum Íslendinga á þessu stóra svæði: Af hverju er það ekki metið þannig að það sé alla vega líka sótt fjármagn til þess — af hverju þessi forgangsröðun nákvæmlega? Og aftur með virðingu fyrir breska markaðnum sem er samt klárlega minni en hinn opni sameiginlegi markaður.