148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir. Ég verð að viðurkenna það að ég er algjörlega vanhæf í þessa umræðu vegna þess að mér fannst ég eiga eftir eina spurningu í viðbót. En ég læri á þetta, fyrst ég var nú að hvetja til þess að þetta form yrði viðhaft áfram. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og skil hann sem svo að það sé sannarlega ekki ætlunin að áhugi á Brexit-málum og sú vinna sem þar á að fara í með tilheyrandi fjármagni verði á kostnað innleiðingarmála. Þó svo að mörg þeirra heyri undir fagráðuneytin þá geri ég nú ráð fyrir að utanríkisráðuneytið haldi utan um þann hatt og þá vinnu.

Ég velti aðeins fyrir mér og þykir mikilvægt að það komi fram að þegar kemur að því að Bretland gengur úr Evrópusambandinu þá munum við væntanlega, a.m.k. í byrjun, eiga samskipti við þá í fríverslun í gegnum EFTA sem þriðja ríki. Það er ekki endilega svo, ég sé það á svip ráðherra. Þetta var það sem ég hafði hug á að spyrja hann um. Ég trúi því, ég ætla að gerast spádómlega vaxin hér og nú, að við eigum eftir að taka Brexit-umræðu hér innan ekki of langs tíma. (Gripið fram í: Utanrrh. Vonandi.) Ég þakka þessa umræðu í bili.