148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi tryggingagjaldið þá sé ég hlutina svona: Laun hafa hækkað þó nokkuð á undanförnum árum, mjög verulega reyndar. Á sama tíma hefur gengi gjaldmiðilsins styrkst. Krónan er sterkari gagnvart öðrum gjaldmiðlum en átti við hér á fyrstu tveimur til þremur árunum eftir hrun. Þetta tvennt saman hefur dregið mjög úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Við sjáum það í útflutningstölunum að við fáum ekki lengur sama vöxtinn ár frá ári og áður var. Það sést núna á tölunum fyrir 3. ársfjórðung.

Þetta er visst áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að fram undan eru kjarasamningar og engum blöðum um það að fletta að stéttarfélögin munu vilja sækja enn frekari kjarabætur á komandi árum. Hvað er þá til ráða þegar fyrirtækin hafa ekki mikið svigrúm til að hækka launin? Ja, það getur komið til góða að lækka tekjuskatt eins og við höfum fest í stjórnarsáttmálann, að stjórnvöld vilji leggja eitthvað á borðið í því samtali. Með því að slaka eitthvað til í tryggingagjaldinu er sömuleiðis hægt að auka svigrúm fyrirtækjanna til að fást við þá breyttu stöðu sem ég er hér að nefna. Þess vegna er tryggingagjaldið sömuleiðis uppi á borðum.

Það verður hins vegar að benda á það að eitt prósentustig í tryggingagjaldi stendur fyrir um 15 milljörðum. Þá 15 milljarða höfum við ekki til að spila út í slíka ráðstöfun samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi, ekki samkvæmt þeirri fjármálastefnu sem við erum að kynna samhliða um að skila a.m.k. 1,2% af landsframleiðslu í afkomu. Þessi umræða verður ekki tekin án þess að við ræðum gjaldahlið frumvarpsins á sama tíma í stóru samhengi vegna þess að í þessum sal hafa menn verið sammála um (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) að auka verulega við í almannatryggingum. Á yfirstandandi ári fóru útgjöld vegna almannatrygginga til dæmis upp um yfir 20 milljarða. (Forseti hringir.) En ég er þeirrar skoðunar að víða sé hægt að gera betur í rekstri hjá ríkinu. Það er eitt af áherslumálunum.