148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugann á þessum mikilvæga málaflokki. Í fjárlagafrumvarpinu eins og það er hér er til að mynda lagt til að settar séu nýjar 170 milljónir til Vífilsstaða. Við erum að bæta í útskriftardeildina á Landakoti. Og heimaþjónustan er auðvitað að hluta til hjá sveitarfélögum en að hluta til hjá heilsugæsluþætti heilbrigðisþjónustunnar. Fyrir þessu er séð að þessu leyti en auðvitað ekki með fullnægjandi eða endanlegum hætti. En þetta er eitt af því sem þarf að skoða. Ég fullvissa hv. þingmann um að sú sem hér stendur er öll eyru í því og er ekki sérfræðingur í heilbrigðismálum, hvorki læknir né lyfjafræðingur. Ég veiti málaflokknum forystu til að hlusta eftir þeim sem best þekkja til og nota mitt pólitíska hyggjuvit, bakland og reynslu til að koma skynsamlegustu ákvörðununum í framkvæmd.