148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil benda á að fyrir utan þær 400 milljónir sem núna er gerðar varanlegar hafa fjárheimildir til löggæslumála verið auknar um mörg hundruð milljónir síðustu ár og hefur aukningin verið veruleg undanfarin 2–3 ár.

Ég deili hins vegar áhyggjum hv. þingmanns af því að fjöldi lögreglumanna sé ekki nægur. Skortur á löggæslumönnum í dag helgast ekki endilega eingöngu af fjárheimildum einstakra embætta heldur blasir við að þessi misserin og næstu verður mikil endurnýjun. Margir lögreglumenn eru að komast á aldur. Ég hef af því áhyggjur að þeir sem sækja nám í löggæslufræðum, sem hefur verið endurskipulagt með jákvæðum hætti og er rekið núna á háskólastigi, og útskrifast þaðan skili sér ekki nægilega vel inn í löggæsluna. Á því þarf að taka. Við erum að skoða hvernig til tekst með þetta nám í því ljósi að kannski skila ekki nægilega margir sér í löggæsluna því að það hefur myndast gríðarleg eftirspurn eftir menntuðu löggæslufólki í hin ýmsu störf. Það er áhyggjuefni út af fyrir sig.

Það verður auðvitað aldrei um það að ræða að öryggi borgaranna verði látið líða fyrir fjárskort. Það kemur ekki til þess. Ég skil vel að einstök lögregluembætti telji aldrei nóg að gert. Ég hef lagt á það áherslu við löggæsluna að sífellt þurfi að huga að skipulagsbreytingum. Embættin sjálf, ríkislögreglustjóri sjálfur, þarf að hafa forgöngu um endurskipulagningu og hagræðingu þannig að sem mest sé hægt að fá fyrir hverja krónu.

En ég hvet hv. þingmann til dáða í þessum málaflokki og bíð eftir tillögum frá henni í þeim efnum hvernig megi gera betur til að efla löggæsluna á Íslandi.