148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér er þó spurn hver sé munurinn á málaskrá héraðsdóms og svo plansins um að uppfæra heila kerfið. Hvers vegna er þessu fjármagni ekki að finna neinn annan stað? Auðvitað er gott að setja fjármagn í kerfi sem er öllum til góða. En þegar málaflokkurinn er akkúrat þessi, að standa fyrir úrbótum í kynferðisbrotamálum og meðferð þeirra, þykir mér heldur dapurlegt að sjá að stærsta fjárframlagið í kerfi sem á að innleiða fyrir risastórt réttarvörslukerfið á Íslandi eigi að taka úr málaflokknum kynferðisbrotamál og hvernig megi gera úrbætur í þeim.

Mér finnst svolítið erfitt að horfa upp á það. Ég sé ekki af hverju það þarf að vera þannig. Ég hef ekki fundið þessu stað, áætlun um að fjármagna nákvæmlega þessa upplýsingatækniáætlun, í síðustu fjárlögum, þ.e. þeim sem náðu aldrei fram að ganga.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er verið að veita pening í kerfi sem stóð ekki til að fjármagna en þykir hentugt að setja í kynferðisbrotamálin? Er þeim peningum ekki betur dreift yfir á hin málasviðin sem öll njóta góðs af því? Hvers vegna þurfa kynferðisbrotamálin að bera hitann og þungann af upplýsingakerfi fyrir allt réttarvörslukerfið? Það hlýtur að vera pólitísk ákvörðun að svona stór hluti af fjármunum sem á að verja í að gera úrbætur fyrir brotaþola kynferðisbrota fari í tölvukerfi, til að miðla málum þarna á milli.

Stendur ekki til til að mynda að bæta félagslegan eða réttarfarslegan stuðning við brotaþola, frekar en að láta málstað þeirra borga fyrir upplýsingakerfi fyrir allt dómskerfið?