148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur staðið til lengi og verið mikill áhugi á því innan réttarvörslukerfisins að taka upp rafræna stjórnsýslu. Það hefur verið margra ára baráttumál. Hvað héraðsdómstólana varðar get ég sagt að það hefur verið áratugabaráttumál að endurnýja t.d. málaskráningarkerfi héraðsdómstóla. Það er forsenda þess að hægt verði að taka upp rafræna stjórnsýslu í réttarvörslukerfinu, þannig að gögn geti flust frá lögreglu til lögmanna til dómstóla til fangelsismála og til fullnustuyfirvalda. Þetta er mikið hagsmunamál.

Það er rétt að þetta stóð ekki til því að menn höfðu ekki afmarkað fé í þá vinnu af slíkum myndarskap og nú er búið að gera þegar kemur að lögreglunni, ákæruvaldinu. En það hafði verið tekin ákvörðun um það. Ég hugðist kynna í frumvarpi, og það lá fyrir í frumvarpi sem var kynnt í haust, fjármagn sérstaklega eyrnamerkt til að uppfæra málaskrá héraðsdóms. Ég legg aftur á það áherslu að það er alger forsenda þess að hægt sé að taka þetta upp.

Í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota kemur fram að lögð er mikil áhersla á þetta atriði í þágu brotaþola. Brotaþolar hafa einmitt kvartað yfir því að fá ekki upplýsingar um rekstur máls. Jafnvel þótt brotaþolar eigi ekki aðild að málinu hafa þeir þó einhverja hagsmuni af því vegna þess að yfirleitt hafa þeir þá uppi skaðabótakröfu í slíkum sakamálum. Það skiptir þá miklu máli að vita framgang dómsmála, hvar þau eru stödd og hvenær þeim ljúki. Þetta hefur m.a. verið rætt og á það lögð áhersla að þetta verði tekið upp. Það er ákaflega gleðilegt, og ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður geti fagnað því með mér og öðrum og ríkisstjórninni allri, að núna sé tekið frá fé sérstaklega til að hrinda rafrænni réttarvörslu í framkvæmd. Þess utan er eyrnamerkt fé og aukið fjármagn til að fjölga saksóknurum við héraðssaksóknaraembættið, sem skiptir miklu máli.