148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég get heils hugar tekið undir að það er mjög mikilvægt að réttarvörslukerfið komist inn í 21. öldina. Mér finnst það hins vegar ekki eiga að vera á kostnað brotaþola kynferðisofbeldis, að þeir sjái um að uppfæra tölvukerfi réttarvörslukerfisins. Mér þykir forgangsröðunin eiga að vera þannig að dómstólar eyði peningum í þetta og að lögreglan eyði fjármunum í þetta og noti til þess sitt venjulega fé. Það á ekki að vera þannig að þegar eitt af lykiláherslumálum ríkisstjórnarinnar er að hrinda í framkvæmd meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins sé stór hluti af því ætlaður til að uppfæra tölvukerfi réttarvörslukerfisins.

Það er vissulega hagur af því fyrir brotaþola að fá aðgengi að upplýsingum. Við þekkjum öll að það hefur oft skelfilegar afleiðingar þegar þeir fá ekki aðgengi að upplýsingum. Á móti kemur að þeir brotaþolar sem ég hef rætt við, eftir að hafa kynnt mér þennan málaflokk umtalsvert, hafa helst nefnt að þeir þarfnist aukins stuðnings frá kerfinu, þarfnist betri réttarúrræða og betra utanumhalds í gegnum allt ferlið. Mér þykir leitt að sjá að það skuli ekki vera sett í forgang, þ.e. umhyggja fyrir velferð brotaþola og hvernig þeir komast sem best frá því ferli sem ákæra um nauðgun eða önnur kynferðisbrot felur í sér.

En við munum að sjálfsögðu óska nánari sundurliðunar á vettvangi fjárlaganefndar, ég held því til haga hér, sundurliðunar á því hvað felst í þeim liðum sem eru tilgreindir í fjárlagafrumvarpinu hvað varðar innviði lögreglunnar og hvernig þetta á að nýtast nákvæmlega og sundurliðað í það að bæta þennan málaflokk.