148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér undir lok umræðunnar vil ég taka það fram að mér finnst hafa verið farið mjög málefnalega yfir fjárlagafrumvarpið þótt aðdragandinn væri afskaplega skammur og sérstakt fyrirkomulag á umræðunni í dag, frábrugðið því sem við höfum átt að venjast undanfarin ár. Þetta hefur þó tekist ágætlega með því að ráðherrar hafa verið til staðar og komið upp í andsvör og sumir sett sig á mælendaskrá, sem hefur lífgað aðeins upp á umræðuna. Ég get tekið undir með þeim sem sögðu þetta hafa komið ágætlega út, enda er það víst þannig, sýnist mér, að þessar örlítið styttri ræður hleypa meira lífi í salinn en hinar löngu, þungu. Það fer vel á því að ég hafi fimm mínútur í lokin.

Mér sýnist að í þessari umræðu hafi komið fram mjög fjölbreytt sjónarmið um stefnuna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Því er komið á framfæri að við mættum gera betur í því að tryggja nýtingu fjármunanna, spyrja okkur hvar við gætum mögulega dregið saman til þess að skapa svigrúm fyrir breytta forgangsröðun, eftir atvikum frekari uppgreiðslu skulda. Það er svona á öðrum jaðrinum yfir í það að öðrum finnst að hér sé ekki fylgt nægilega vel eftir yfirlýsingum í aðdraganda kosninga um að það standi til að styrkja svo um munar ýmsa innviði og samfélagsþjónustu sem við ætlum sameiginlega að standa undir. Ég ætla að leyfa mér að standa mitt á milli þessara sjónarmiða og segja að í fjárlagafrumvarpinu hafi einmitt fundist gott jafnvægi á milli þess að standa við fyrri yfirlýsingar um að við þyrftum að nýta þá efnahagssveiflu sem hefur verið með okkur undanfarin ár til þess að halda áfram að greiða upp skuldir og búa þannig í haginn fyrir framtíðina, að taka til ríkisins hluta af efnahagsuppgangnum, annað væri óábyrgt þar sem það er fyrirséð að við munum ekki vaxa á þessum hraða inn í framtíðina endalaust, og hins að einmitt styrkja samfélagsþjónustu víða í ríkisrekstrinum.

Þessi umræða hefur snúist að miklu leyti um heilbrigðismálin. Við gerum töluvert umfram það sem samþykkt var í ríkisfjármálaáætlun síðastliðið vor. Við eigum að vera stolt af því að geta gert betur. Þar viljum við gera betur. Við viljum vera með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það þarf að fjármagna myndarlega. Ég er mjög ánægður með þau skref, þær áherslur í þessu frumvarpi. Það er sömuleiðis í menntamálunum sem við sjáum mikla innspýtingu umfram það sem rætt var síðastliðið vor. Samgöngur fylgja þar á eftir og aðrir málaflokkar sem hafa verið sérstaklega í umræðunni í kosningunum og á undanförnum misserum. Þar væri kannski nærtækast að nefna það sem rætt hefur verið í dag, að í réttarvörslukerfinu er verið að leggja áherslu á að taka betur á kynferðisbrotamálum.

Málið gengur til fjárlaganefndar. Það er ærið verk sem bíður nefndarinnar vegna þess að með þessu frumvarpi koma síðan önnur mál, tekjuöflunarmálið sem við ætlum að ræða á morgun og önnur mál sem fylgja í kjölfarið og er hefðbundið að ljúka. Ég ætla einfaldlega að ítreka það sem áður hefur komið fram að í fjármálaráðuneytinu verður allt gert til þess að veita upplýsingar og bregðast við óskum um skýringar eftir því sem hægt er. Ég býð fram alla mögulega aðstoð í því efni. Ég óska nefndarmönnum góðs gengis við þessar óvenjulegu aðstæður.

Ég ætla sömuleiðis að þakka fyrir það að á þinginu skuli yfir höfuð takast, þrátt fyrir ólík sjónarmið, að því er virðist ágætissamstaða um að gera eins gott úr stöðunni og hægt er. Umræðan í dag er ágætisbyrjun á því hvernig þingið ætlar að taka á þessu máli. Ég er vongóður með framhaldið.