148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[10:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir næsta ár. Í frumvarpinu er einnig að finna nokkrar tillögur að breytingum sem talið er nauðsynlegt að samþykktar verði fyrir áramót. Efnisatriði frumvarpsins eru af margvíslegum toga og hafa áhrif bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta, en sú yfirferð er ekki endilega í þeirri röð sem er að finna í frumvarpinu sjálfu.

Fyrst fjármagnstekjuskattur. Lagt er til að fjármagnstekjuskattur hækki um tvö prósentustig, eða úr 20% í 22%. Markmið þessarar hækkunar er að gera tekjuskattskerfið réttlátara óháð uppruna tekna með því að draga úr þeim mun sem er í dag á skattlagningu fjármagnstekna annars vegar og launatekna hins vegar án þess þó að fjármagnstekjur verði skattlagðar umfram launatekjur, lífeyri og almennar tekjur. Jafnframt er stefnt að endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskatts, þar á meðal verðbótaþætti vaxtatekna. En í dag eru vaxtatekjur undir 125.000 kr. á ári undanþegnar fjármagnstekjuskatti. Það ber að hafa það í huga.

Þá er vert að nefna að við þessa breytingu verður samanlagður skattur á hagnað lögaðila með takmarkaða ábyrgð og úthlutaðan arð til eigenda 37,6% samanborið við 36% í gildandi lögum. Við það ætti að draga úr þeirri tilhneigingu að stofna einkahlutafélag kringum eigin rekstur í skattalegum tilgangi sem birtist í formi tilfærslna á launatekjum yfir í rekstrarhagnað og arðgreiðslur.

Tekjuáhrif hækkunarinnar eru áætluð 1,6 milljarðar kr. á árinu 2018 en fara svo vaxandi og verða 2,6 milljarðar kr. á árinu 2019. Skýringin er sú að fjármagnstekjuskattur af vöxtum og arði er innheimtur í staðgreiðslu en álagning á aðrar fjármagnstekjur eins og söluhagnað og leigutekjur á sér stað í júní 2019 við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Þannig að þegar ég segi að tekjurnar fari vaxandi þá er skatturinn í raun og veru kominn að fullu til gildi, verði hann samþykktur um áramótin, en tekjurnar fara vaxandi ef við horfum bara á fjárlagaárin og rekstur hvers árs fyrir sig þá skila þær sér ekki í því samhengi fyrr en með eftiráálagningu af þeim sökum sem ég rakti að það er ekki hægt að innheimta í staðgreiðslu allar tekjur af þessum skatti.

Samkvæmt greiningu ráðuneytisins á fjármagnstekjum einstaklinga eftir tekjutíundum munu áhrif hækkunarinnar aðallega lenda á þeim sem hæstar hafa tekjurnar, eða tíundu tekjutíund, og því leiða til ákveðinnar tekjujöfnunar og meira jafnræðis í tekjuskattskerfinu.

Þá er komið að hækkun kolefnisgjalds. Í frumvarpinu er lögð til 50% hækkun kolefnisgjalds sem fyrsta skref í væntanlegri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, en reiknað er með að skrefunum muni fjölga þegar aðgerðaáætlunin verður komin til framkvæmda. Jafnframt er stefnt að því að fækka undanþágum frá gjaldtöku í formi kolefnisgjalds.

Meginmarkmið væntanlegrar aðgerðaáætlunar er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun með orkuskiptum eða bættri orkunýtingu. Reiknað er með að þessi hækkun auki tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á árinu 2018, en lagt er til að hún taki gildi í ársbyrjun 2018. Breytingin kemur til með að hækka útsöluverð á bensíni um 1,8% og dísil um 2%. Þá eru áhrif á vísitölu neysluverðs metin um 0,03% til hækkunar.

Í þriðja lagi er hér verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og gjalda. Þess má minnast að fyrir nokkrum árum síðan gerði þáverandi ríkisstjórn samkomulag við vinnumarkaðinn um að krónutölugjöld skyldu ekki hækka á því kjörtímabili umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það hefur gerst á undanförnum árum að þessir skattar hafi ekki tekið breytingum milli ára, en komi langvarandi slík tímabil upp þá er ljóst að þeir skattstofnar eru að rýrna að verðgildi. Hér er farin hin hefðbundna leið sem er að láta þessa skatta fylgja verðlagi. Þess vegna er í frumvarpinu að finna tillögu um 2% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjöldum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þar er miðað við áætlaða tólf mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2017. Hér er um að ræða almennt og sérstakt bensíngjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins og gjald af áfengi og tóbaki. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 1,3 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru áætluð 0,04%. Það væri hægt að nálgast þetta á hinn veginn og segja að láti Alþingi undir höfuð leggjast að láta skattstofninn fylgja verðlagi þá væri falin í því skattalækkun. En hérna er það tiltekið að það skili til viðbótar 1,3 milljörðum að tryggja að þessir skattstofnar fylgi verðlagi.

Ég ætla næst að fara hér yfir gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald. Eins og rakið var er lögð til 2% hækkun á gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur. Samkvæmt því verður gjaldið 11.175 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda árið 2018 vegna tekna 2017. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 50 millj. kr. viðbótartekjum á ári. Sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins fari úr 16.800 kr. í 17.100 kr. í takt við verðlagsbreytingar. Áætlaðar viðbótartekjur eru um 85 millj. kr.

Barnabætur og vaxtabætur. Tillögu um 8,5% hækkun á viðmiðunarfjárhæð barnabóta og 7,4% hækkun á tekjuviðmiðunarmörkum er að finna í frumvarpinu. Þær koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018. Það þýðir að heildarútgjöld vegna barnabóta verða 10% hærri á næsta ári borið saman við yfirstandandi ár. Þannig er gert ráð fyrir að barnabætur í heild verði 10,5 milljarðar kr. á árinu 2018 eða svipað og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Áætluð útkoma á þessu ári, á yfirstandandi ári, eru 9,5–9,6 milljarðar.

Þá verða útreikningsreglur vaxtabóta framlengdar óbreyttar frá þessu ári yfir á það næsta. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 4 milljörðum kr. á árinu 2018 samanborið við 4,5 milljarða í ár.

Virðisaukaskattsívilnun vegna rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða er hér næst. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Upphaflega var ákvæðinu aðeins ætlað að gilda út árið 2013. Frá því ári hefur gildistíminn verið framlengdur um eitt ár í senn. Þessi stutti gildistími hefur sætt gagnrýni m.a. vegna þeirrar óvissu sem hann skapar. Tillaga frumvarpsins er því sú að ívilnunin gildi í þrjú ár og falli þannig niður í lok árs 2020. Samlegðar gætir milli rafmagnsbifreiða og tengiltvinnbifreiða sem báðar ganga fyrir rafmagni sem varðveitt er á rafgeymi og þykir rétt að miða við að ívilnanirnar falli úr gildi í kjölfar þess að 10.000 rafmagnsbifreiðar annars vegar og 10.000 tengiltvinnbifreiðar hins vegar hafi verið skráðar á ökutækjaskrá. Það myndi nema samtals um 8,8% bifreiðaflotans í lok árs 2016.

Áframhaldandi fjölgun tengiltvinnbifreiða ætti að styðja við þá uppbyggingu hleðsluinnviða sem þegar er hafin. Í samræmi við þetta er lagt til að ívilnun vegna kaupa á vetnisbifreið falli úr gildi í kjölfar þess að 10.000 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar. Þrátt fyrir að framangreindum fjölda bifreiða verði ekki náð í árslok 2020 mun ívilnunin þá falla niður og um skattlagningu þeirra fara eftir öðrum ákvæðum virðisaukaskattslaga þar eftir nema Alþingi ákveði annað þegar þar að kemur eins og átt hefur við undanfarin ár.

Ég held að þingmenn og allir reyndar geri sér vel grein fyrir því að við erum á ákveðnum tímamótum í þessum efnum. Það eru að verða mjög miklar breytingar í framleiðslu á bifreiðum og nýjar vélar, ný tækni að ryðja sér rúms. Þessar ívilnanir hafa verið til þess hugsaðar að hvetja til innflutnings og breytinga í þessum efnum, en það kemur að því að við þurfum að taka ákvörðun um það hvenær nýtt kerfi tekur við. Hér erum við stödd í ákveðnu millibilsástandi, en það er með rökum sem gagnrýnt hefur verið að umhverfið hafi einungis verið ákveðið fyrir eitt ár í senn undanfarin ár. Þess vegna held ég að sé mjög til bóta að taka hér ákvörðun um að framlengja þessar ívilnanir í þrjú ár. En við munum áfram vinna við að meta þessi gjaldakerfi sem eru nokkuð flókin. Þar er mikilvægt að huga að samspili eldsneytisgjaldanna og síðan þessara innflutningsgjalda vegna bifreiða.

Þessi breyting sem ég hef verið að rekja er talin lækka tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á árinu 2018 borið saman við það að ívilnun hefði fallið niður. En tekjurnar lækka ekki ef við berum okkur saman við árið 2017 vegna þess að við erum í raun og veru bara að framlengja sömu ívilnun. Ef við lítum þannig á að núgildandi lög hefðu runnið sitt skeið um áramót þá er með þessari ákvörðun verið að ákveða um að lækka tekjurnar um 2 milljarða á næsta ári. Það er ágætt að hafa það í huga að það er umfang þessarar ívilnunar og hún myndi vaxa á árunum fram undan.

Næst ætla ég að fara yfir vörugjöld af fólksbifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum. Árið 2015 samþykkti Alþingi að fallið yrði frá vörugjaldsívilnun gagnvart innflutningi bílaleigubíla frá og með árinu 2018. Þetta var samþykkt 2015. Ástæðan var margþætt þar á meðal þær röksemdir að fyrirkomulagið drægi úr virkni hvata til minni koltvísýringslosunar og hefði óæskileg áhrif á eftirsölumarkað fólksbifreiða. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að við gerum þetta í tveimur skrefum þannig að hámark ívilnunarinnar verði lækkað úr 500.000 kr. í 250.000 kr. um næstu áramót, síðan alfarið felld niður í lok næsta árs. Verði þessi tillaga samþykkt má ætla að hún leiði til 1,5 milljarða kr. lækkunar á tekjum ríkissjóðs að öðru óbreyttu.

Ég ætla næst að víkja að afnámi áfengiskaupafríðinda. Á grundvelli heimildar í lögum um gjald af áfengi og tóbaki hafa m.a. nokkrar af æðstu stofnunum ríkisins verið undanþegnar greiðslu á áfengisgjaldi vegna áfengiskaupa. Slík áfengiskaupafríðindi fela í sér ívilnun sem mætti jafna til fjárstyrks úr ríkissjóði eða skattstyrks. Forstöðumönnum umræddra stofnana hefur þegar verið tilkynnt um að þessi heimild verði afnumin og er tillaga frumvarpsins í samræmi við þá tilkynningu. En þess má geta hér að það var tekið sérstaklega saman hversu mikil heildareftirgjöf áfengisgjalda til allra þeirra stofnana, þar með talið ráðuneyta sem hefðu notið niðurfellingarinnar, væri. Niðurstaðan var sú að þetta væri um 10,5 milljónir á ári. Það þykir eðlilegt að fella þessi fríðindi einfaldlega niður, það falli bara undir almennar aðrar fjárheimildir viðkomandi stofnana að greiða fyrir áfengi eins og allir aðrir í þessu landi gera.

Þá er næst komið að gjaldskrá vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2,3 milljörðum kr. Gert er ráð fyrir að heildargjöld Fjármálaeftirlitsins verði 2,4 milljarðar kr., en aðrar tekjur 56,4 millj. kr. Verði tilskipun um endurreisn og skilameðferð fjármála- og verðbréfafyrirtækja innleidd í íslensk lög á komandi mánuðum mun sérstakt eftirlitsgjald vegna þess nema 50 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld stofnunarinnar verði 17,2 millj. kr. umfram samtölu tekna. Fyrirhugað er að mæta þessum halla með lækkun á eigin fé stofnunarinnar sem verði 116 millj. kr. í árslok 2018, eða sem nemur um 4,9% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs, samanber heimild í lögum um ráðstöfun rekstrarafgangs og rekstrartaps. Gert er ráð fyrir að breytingarnar sem taka mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Þá er það greiðsla kostnaðar vegna reksturs umboðsmanns skuldara. Lagt er til að gjald sem standa á straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara verði 0,00888%, sem er lækkun frá þessu ári. Í lögum um gjaldtökuna er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 277 millj. kr. á árinu 2018 en hafa verið um 360 millj. kr. á þessu ári.

Þá er það sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Með breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum árið 2016 var sú breyting m.a. gerð á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegundatekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega óháð tegund þeirra. Eftir samþykkt laganna hefur komið fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að tekið verði upp að nýju sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem komi til viðbótar við almenna frítekjumarkið.

Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og þar með talið lægstar lífeyristekjurnar. Því er lagt til að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna í mánuði en gildir einnig um greiðslu heimilisuppbótar sem greiðist þeim ellilífeyrisþegum sem halda einir heimili. Það er áætlað að þessi breyting kunni að auka greiðslur úr ríkissjóði um u.þ.b. 1,1 milljarð kr. á ári.

Mig langar að segja örstutt um þessa breytingu að ekki verður horft fram hjá því að hún tekur eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst og eingöngu til þeirra sem á annað borð hafa getu til þess að sækja sér atvinnutekjur. En það er að sjálfsögðu alls ekki þannig um alla þá sem hafa úr litlu að spila um hver mánaðamót en teljast til hóps ellilífeyrisþega að þeir hafi aðstæður eða getu yfir höfuð til þess að fara út á vinnumarkaðinn. Það á ekki að koma í veg fyrir það að þeir sem þó hafa þá getu hafi þann rétt að bæta kjör sín með atvinnuþátttöku. Ég nefni þetta engu að síður vegna þess að við höfum fjármuni af skornum skammti. Þegar við tökum ákvörðun um ráðstöfun þeirra þá þarf að forgangsraða. Hér er þessum rúma 1 milljarði kr. forgangsraðað til þess hóps sem hefur getuna til þess að sækja sér atvinnutekjur. Af þeim milljarði fer ekkert til hinna sem ekki hafa líkamlega getu, andlegan styrk eða yfir höfuð aðstæður til þess að sækja sér bætt lífskjör með atvinnutekjum. Sá hópur hefur hins vegar eins og allir sem heyra undir almannatryggingakerfið notið góðs af þeirri breytingu sem hér var vísað til. Um það leyfi ég mér að vísa til svars sem barst til Alþingis vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrr á þessu ári, þar sem leitt er fram hversu miklu breytingar á almannatryggingakerfinu sem nýlega hafa verið gerðar hafa skilað öllum tekjutíundum.

Áfram heldur vinnan við að bæta kerfið, gera það sanngjarnt og réttlátt. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að oft hefur verið vísað til eldra frítekjumarks vegna atvinnutekna. Ég tel að það sé ekki sanngjarn eða eðlilegur samanburður vegna þess að það kerfi var einfaldlega allt öðruvísi samansett og margir hlutar bótanna sem ekki komu inn í bótagrunninn sem er að baki þessu frítekjumarki. Það er ekki hægt að taka einstaka þætti úr gamla kerfinu og bera saman við nýja kerfið og segja: Gamla frítekjumarkið var um 108.000 kr. sem er hærra heldur en þetta frítekjumark. Það var einfaldlega frítekjumark fyrir allt annars konar kerfi. Þessu vildi ég halda til haga. En það er enginn vafi að allir þeir sem fá bætur úr almannatryggingakerfinu, ellilífeyrisþegar og aðrir, eru betur komnir eftir breytingarnar og enn betur eftir þessa breytingu, verði hún að lögum, en átti við í eldra kerfi.

Ég ætla næst að víkja að rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttöku heimilismanna. Það eru tvö ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni aldraðra sem hér er lagt til að verði framlengd. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 200 millj. kr. Við erum líka með ákvæði í þessu frumvarpi um samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þar er sömuleiðis verið að framlengja ákvæði til bráðabirgða til að sporna gegn því að þessar víxlhækkanir hefjist á næsta ári. Það hefði að óbreyttu skert kjör þeirra sem hér eiga undir. Við hefðum án þessarar framlengingar lækkað greiðslur um 1 milljarð, en það er komið í veg fyrir það með framlengingu ákvæðisins.

Starfsendurhæfingarsjóður er sömuleiðis hér á dagskrá. Atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi, lífeyrissjóðir og ríkið, standa straum af rekstri starfsendurhæfingarsjóða með því að greiða 0,13% af stofni lífeyrisiðgjalda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Enn fremur gera lögin ráð fyrir að framlag ríkisins sé hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald. Fyrir liggur að VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, sem er eini starfandi starfsendurhæfingarsjóðurinn, hefur ekki þörf fyrir svo mikið fjármagn til rekstrarins og hafði því verið gert samkomulag milli ríkis og aðila vinnumarkaðar um að atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi ásamt lífeyrissjóðum greiði sem nemur 0,10% í stað 0,13% af gjaldstofninum fyrir árin 2016 og 2017. Það er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almannatryggingagjaldi á árinu 2018. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Eftir sem áður er áfram gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum, eða þessum 0,10%.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra annars vegar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2018 leggi ríkissjóður til framlag á fjárlögum.

Þá er komið að framlagi til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs. Það er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2018 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi ríkis og kirkju muni hækka um 37,1 millj. kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Það er jafnframt gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,7 millj. kr. á næsta ári.

Varðandi sóknargjöld er gert ráð fyrir að föst krónutala hækki úr 920 kr. á mánuði í 931 kr. fyrir árið 2018. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, með breytingu á lögum um sóknargjöld gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.256 millj. kr. framlagi til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins og nemur heildarhækkun sóknargjaldsins frá fjárlögum 2017 því tæplega 42 millj. kr.

Næst er komið að gjaldskyldri losun gróðurhúsalofttegunda. Það er gert ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði lækkað úr 968 kr. í 627 til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu, en það er það sem ræður þessu ár frá ári. þetta mun hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Næst er það gjaldskrá Útlendingastofnunar. Það eru lagðar til breytingar hér samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs en gjaldið hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Mikilvægt þykir að breyta núverandi gjaldskrá í samræmi við þróun á vísitölu neysluverðs frá árinu 2009 til júlí 2017, auk þess sem hún er ekki í samræmi við ný lög um útlendinga sem tóku gildi í byrjun árs 2017. Lög um útlendinga fólu í sér heildarendurskoðun á eldri löggjöf um útlendinga. Við þá endurskoðun féllu ýmis ákvæði eldri laga brott eða þeim var breytt. Er því svo komið að í lögum um aukatekjur ríkissjóðs er nú að finna gjaldtökuheimildir fyrir leyfum sem ekki eru lengur til eða heitum þeirra hefur verið breytt. Í samræmi við ný lög um útlendinga þykir því rétt að fella brott þau ákvæði í aukatekjulögum sem ekki eiga lengur við ásamt tilvísun til þeirra og jafnframt aðlaga þau ákvæði sem þörf er á með tilliti til nýrra heita á útgefnum leyfum. Breytingin hefur ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Næst vil ég nefna hér að lagðar eru til breytingar á tekjuskattslögum í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að frávísun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á kæru á þeim grundvelli að tekjuskattslög víki til hliðar almennri kæruheimild stjórnsýslulaga væri ekki í samræmi við lög. Í þessu ljósi er í frumvarpinu lagt til að úrskurði ríkisskattstjóra megi skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

Þá er komið að skilum á ríki-fyrir-ríki skýrslu eins og það heitir, milliverðlagning. Í tekjuskattslögum er að finna ákvæði um skyldu móðurfélags í heildarsamstæðu sem er með heimilisfesti í fleiri ríkjum til að skila svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu til ríkisskattstjóra með upplýsingum um tekjur og skatta í þeim ríkjum þar sem félög innan heildarsamstæðunnar eiga heimilisfesti. Þessar upplýsingar eru grundvöllur að mati á milliverðlagningu innan samstæðunnar. Núgildandi ákvæði felur í sér að skil eigi að vera fyrir lok hvers almanaksárs að loknu reikningsári, en í viðmiðunarreglum OECD segir að miða skuli við að skil eigi sér stað eigi síðar en tólf mánuðum frá lokum reikningsárs. Hér er með breytingum á ákvæðinu verið að koma til móts við ábendingar varðandi þetta misræmi.

Framlenging, er hér næst hjá mér, á tímafresti starfshóps sem ætlað var að móta tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga. Ég hygg að hér hafi Alþingi komið að breytingu á lögunum og farið fram á þessa tillögugerð. Það er lagt til að starfshópnum sem var ætlað að móta þessar tillögur verði veittur viðbótarfrestur eða til loka árs 2018. Þá ætti innleiðingu persónuverndargerða ESB að vera lokið.

Svo er hér sólarlagsákvæði laga um fjarskiptasjóð að finna í frumvarpinu og sólarlagsákvæðið gildi samkvæmt breytingartillögunni út árið 2022.

Ég hef hér rakið tillögur frumvarpsins. Þær eru margvíslegar og hafa mismikil áhrif á tekju- og gjaldahliðina. Sama má segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Áætlað er að tillögur frumvarpsins um skattkerfisbreytingar muni auka tekjur ríkissjóðs um nálægt 1,5 milljörðum kr. á árinu 2018. Hækkun fjármagnstekjuskatts mun hafa áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna til lækkunar. Sama má segja um kolefnisgjald sem reikna má með að hækki verð á eldsneyti og vísitölu neysluverðs um 0,03%. Þá eru áhrif af hækkun krónutölugjalda metin á 0,04% á vísitölu neysluverðs.

Samanlögð áhrif af skattatillögum frumvarpsins á ráðstöfunartekjur gæti því verið nálægt 0,1%. Sé hins vegar horft til þeirra tillagna frumvarpsins sem hafa áhrif á gjaldahliðina ber helst að nefna þær þrjár sem hafa bein áhrif á (Forseti hringir.) bótagreiðslur til heimila, sérstök hækkun á frítekjumarki atvinnutekna hjá öldruðum, hækkun barnabóta og lækkun vaxtabóta. Samanlögð áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur eru 1,5 milljarðar kr. til hækkunar.

Þá vil ég að lokum (Forseti hringir.) vekja athygli á því hvernig gjaldahliðin hækkar minna en ráð var fyrir gert (Forseti hringir.) í ríkisfjármálaáætluninni sem samþykkt (Forseti hringir.) hér að vori.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni (Forseti hringir.) vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.