148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ef eitthvað er séum við að draga úr hvatanum til þess að reyna að skjóta sér undan einum skatti og koma sér inn í annan. Mér sýnist á öllu að fyrir lang, lang, langflesta sé munurinn slíkur að það væri ekki þess virði að reyna að beina tekjunum í gegnum einkahlutafélag svo dæmi væri tekið.

Síðan er líka á það að líta að stór hluti fjármagnstekna fellur ekki þannig til að menn hafi í raun og veru val um það að taka slíkar tekjur út með einhverjum hætti sem launatekjur. Vaxandi tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskattinum eru til vitnis um að efnahagskerfið er að taka við sér, það eru að verða meiri umsvif. Þess vegna er það einmitt að við þær aðstæður sem eru uppi núna skiptir miklu að ríkissjóður sé að skila góðum afgangi eins og við erum að gera ráð fyrir bæði í fjárlagafrumvarpinu og fjármálastefnunni (Forseti hringir.) vegna þess að skattstofnar eins og þessi eru fljótir að hverfa ef uppgangurinn (Forseti hringir.) stöðvast og það kólnar eitthvað (Forseti hringir.) á mörkuðunum.