148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, spurningin sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Þegar okkur líður eins og við höfum ekki nægilegt fé til að styðja við þá sem hafa minnst, geta ekki unnið, hafa ekki náð að byggja sér upp lífeyri — þegar okkur líður stanslaust eins og við vildum gjarnan hafa úr meiru að spila til að koma til stuðnings við þá — erum við þá sátt við það að forstjórinn, sem áfram rekur sitt eigið fyrirtæki og hefur sínar 900 þús. kr. á mánuði, 75 ára gamall, í heildsölunni sinni, þiggi bætur frá almannatryggingum? Erum við sátt við það? Um það snýst þessi spurning. Að afnema með öllu frítekjumark vegna atvinnutekna væri ákvörðun um að halda forstjóranum áfram inni á almannabótakerfinu. Þrátt fyrir að hann væri með 900 þús. kr. á mánuði. Ég er ekki sáttur við það. Ég held að við verðum að nálgast þetta út frá því að peningarnir séu af skornum skammti og að við verðum að reyna að stýra þeim sem best við getum til þeirra sem eru í mestri þörf.