148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það sé ekki leikandi létt. En við skulum vinna áfram að því að hér verði til nægilega mikil verðmæti svo við getum gert enn betur í almannatryggingakerfinu. Mín ábending varðandi þá breytingu sérstaklega var þessi: Við erum með takmarkað fé og erum að taka ákvörðun með þessari breytingu um að það sé sá hópur sem getur sótt sér atvinnutekjur sem njóti góðs af henni. Ég leyfi mér bara um leið að vekja athygli á því að þá munu þeir fjármunir ekki nýtast þeim hópi eldri borgara, segjum, sem borga háa leigu, eiga erfitt með að ná endum saman og eiga enga möguleika á að fara út á vinnumarkað. Það er ekki (Gripið fram í.) til neins að klappa þeim á bakið sem eru í þeirri stöðu og segja: Nú höfum við unnið gott verk, nú geturðu farið út að vinna og bætt kjör þín. Við megum ekki gleyma þeim hópi. Ég held að það sé bara hollt (Forseti hringir.) að hafa það ávallt í huga þegar maður deilir út fjármunum, og það er endalaust skortslögmál sem er við lýði, að átta sig á hvað maður er ekki að gera um leið og maður gerir það sem vel er gert. Og þessi breyting er góð.