148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Á árunum fyrir hrun fór ójöfnuður á Íslandi mjög hratt vaxandi, hraðar en á öðrum Vesturlöndum og varð meiri. Þegar hrunið skall á fóru fjármagnstekjur niður en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beitti auk þess þeim jöfnunartækjum sem stjórnvöld búa yfir, beitti auk þess skattkerfinu og bótakerfinu til að auka jöfnuð, þrátt fyrir að staðan hafi verið afskaplega erfið á þeim tíma, bæði fyrir ríkissjóð og alla landsmenn.

Ójöfnuður er að aukast á Íslandi í dag þótt ekki sé eins mikill kraftur og eins mikill hraði og var á árunum fyrir hrun. Við hljótum því að spyrja okkur hvort leiðir séu opnar til þess að endurtaka leikinn frá því fyrir hrun sem leiddi til ofsagróða og mikillar eignasöfnunar á stuttum tíma. Eru varnir stjórnvalda og eftirlitsstofnana nógu öflugar til að koma í veg fyrir sömu þróun og þá? Þeirra spurninga þurfum við að spyrja okkur í þessum þingsal og bregðast við á réttan hátt.

Það eru skýrar vísbendingar um að við stefnum í sömu átt og á bóluárunum fyrir hrun, ef við horfum t.d. á eignamyndun sem er á fárra höndum og hækkun á fjármagnstekjuskatti. En stjórnvöld búa yfir stýritækjum. Það er bæði hægt með þeim að milda og magna ójöfnuðinn í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu.

Hvernig skyldi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætla að beita þeim stýritækjum? Það er um það sem frumvarpið sem við ræðum nú fjallar. Er stefnan sú að auka jöfnunaráhrif skatta og bótakerfisins að einhverju marki sem skiptir máli, sem dregur úr þróun ójöfnuðar og eykur jöfnuð í samfélaginu? Því miður er svarið við því nei, þótt augljós sé þörfin fyrir auknar tekjur til að bæta innviði og bæta og styrkja velferðarkerfið og líka augljóst að bregðast þarf við ójöfnuði.

Í þessu frumvarpi er talað um og lagt til að fjármagnstekjuskattur sé hækkaður um 2 prósentustig. Í mínum huga er þetta meira táknrænt heldur en breyting á skattkerfi sem slær á þann hraða á aukningu fjármagnstekna sem við horfum á. Frá árunum 2012–2016 hafa fjármagnstekjur aukist um 58%. Við höfum fengið upplýsingar um að milli áranna 2016 og 2017 sé enn meiri aukning og enn meiri hraði í aukningu fjármagnstekna. Á sama tíma, eða frá árinu 2012–2016, hafa launatekjur aukist um 24%, þannig að munurinn er að verða meiri.

En hvað þýðir þetta? Meðan fjármagnstekjuskatturinn var aðeins 10%, eins og fyrir hrun, fjölgaði einkahlutafélögunum óskaplega mikið og menn fóru að nota skattahagræði sem var á milli launaskattskerfisins og fjármagnstekjuskattskerfisins. Enn nýta menn sér slíkt. Við hljótum því að spyrja hvort þessi breyting verði til að slá á það. Ég get ekki séð að það verði fyrir þá allra ríkustu því að breytingin er hækkun frá neðra þrepi tekjuskattskerfisins, sem er 36,94%. Breyting hefur þau áhrif að hækkunin er 0,66 prósentustigum hærri en neðra þrepið. Hins vegar er það 8,64 prósentustigum lægra en efra skattþrepið. Það er því augljóslega er enn þá mikil hagræðing fyrir þá sem mestar fjármagnstekjurnar hafa að flytja sig ekki yfir í tekjuskattskerfið. Vandinn við þetta er ekki síst sá að útsvar er ekki greitt af fjármagnstekjum.

Ég var bæjarstjóri á bóluárunum þegar fjármagnstekjurnar voru sem hæstar í litlum bæ á Suðurnesjum þar sem allir þekkja alla. Það var ekki bara það að við sem vorum að reka bæinn sæjum á eftir tekjunum sem fór aðeins í ríkissjóð en ekki í sveitarsjóðinn, heldur skapaði þetta skítamóral, leyfi ég mér að segja, í þorpinu því að þeir sem nýttu sér þetta skattahagræði og nýttu sér þá möguleika sem boðið var upp á í kerfinu til að borga minna til nærsamfélagsins, minna til skólanna og leikskólanna o.s.frv., notuðu samt sem áður þjónustuna. Það er réttlætismál að skoða þetta.

Ef ekki er vilji til þess að útsvar sé greitt af fjármagnstekjum þá ætti hækkunin að vera mun meiri. Hækkunin ætti a.m.k. að fara upp í 25% en ekki einungis í 22% til þess að hafa einhver raunveruleg áhrif, eða þá að skatturinn ætti að vera þrepaskiptur og þá mætti vera hærra frítekjumark neðan frá t.d., til þess að reyna að auka réttlætið.

Þessi 2 prósentustiga hækkun á fjármagnstekjuskatti er frá mínum bæjardyrum séð meira táknræn, til þess að segja að eitthvað sé verið að gera þegar kemur að ríkasta fólkinu í landinu. En hún mun ekki hafa raunveruleg áhrif á þá sem mestar fjármagnstekjurnar hafa.

Í ræðu minni í gær talaði ég um barnabætur og vaxtabætur. Ég þarf ekki að endurtaka að það urðu mér mikil vonbrigði að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skyldi ekki nýta þau öflugu jöfnunartæki sem möguleiki er á, sem eru barnabætur og vaxtabætur.

Varðandi barnabæturnar er gert ráð fyrir nákvæmlega sömu tölu og var í frumvarpi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Það er engin breyting þar á. Hins vegar voru viðmiðunartölur og skerðingar svo grimmar að ekki gengu allir milljarðarnir út. Eftir stóð í ríkissjóði rúmum milljarði minna en það sem Alþingi hafði samþykkt að fara ætti til barnafjölskyldna í landinu. Það eina sem gert er, það eina sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gerir, er að breyta viðmiðum þannig að barnabætur byrja ekki að skerðast við 225.000 kr. eins og þær gera núna heldur byrja þær að skerðast við 242.000 kr. Þær byrja að skerðast löngu áður en fólk er komið með lágmarkslaun. Slíkt kerfi ýtir undir fátækt frekar en hitt.

Það er mjög mikilvægt að við tökum þetta til endurskoðunar í meðförum þingsins. Það þarf ekki að leggjast í neinar greiningar því að til eru bæði skýrslur og greiningar sem við getum nýtt okkur. Þetta er ekki flókið. Við höfum efni á því að gera betur við barnafjölskyldurnar í landinu. Það er ekki nóg með að við höfum efni á því heldur þurfum við að gera það vegna þess að okkur er að fækka, þ.e. eldra fólki er að fjölga. Það er jákvætt og gott en það verður til þess að það eru færri sem standa undir lífeyrisgreiðslum þegar líður á öldina. Það er því mikilvægt að ýta undir það að fólk eignist börn og að barnabætur séu þannig að það muni um þær.

Sama er að segja um vaxtabætur. Það á ekki að breyta viðmiðunum. Sömu viðmið fyrir vaxtabætur hafa verið síðan 2010 þegar vaxtabætur voru þrisvar sinnum hærri en þær eru í dag. Í áætlun sem sett er fram er gert ráð fyrir að þær muni enn minnka. Það bitnar líka á kjörum ungra fjölskyldna í landinu.

Ég ætla að nefna tvennt í lokin. Það eru annars vegar skattstyrkir til fyrirtækja og fólks í landinu. Skattstyrkir eru hæstir til ferðaþjónustu, ef frá eru teknir skattstyrkir til fjölskyldumála. Skattstyrkir til fjölskyldumála eru um 33 milljarðar eða svo vegna lægra virðisaukaskattsþreps á matvæli o.s.frv. En skattstyrkir til ferðaþjónustunnar í landinu, til stærstu atvinnugreinarinnar sem vaxið hefur með ógnarhraða, eru 26.558 millj. kr. Það fær engin atvinnugrein slíka skattstyrki, þó að við gerum það reyndar fyrir sjávarútveginn með mjög lágum veiðigjöldum og stóriðjuna með mjög lágum orkusköttum.

Við ætlum enn með því frumvarpi sem hér er lagt fram að halda okkur við ívilnanir til bílaleigna í landinu. Frá árinu 2012 hafa stjórnvöld verið að reyna að loka fyrir þann afslátt á vörugjöldum sem bílaleigur fá. Við vorum búin að samþykkja í þessum sal að það væri mál að linnti og þessi atvinnugrein þyrfti ekki skattstyrk. Hún gæti vel dafnað án þess að ríkið kæmi þar til með aðstoð. Bílaleigufyrirtækin hljóta að vera búin að taka það til greina í verðlagningu sinni og áætlunum að þessi ívilnun átti að falla niður núna um áramótin. Af hverju er verið að breyta því nokkrum dögum fyrir áramót? Hvað er þetta? Við þurfum að fara mjög vandlega yfir það í nefndinni sem fjallar um þetta hvaða rök eru fyrir því að halda enn inni skattstyrk fyrir bílaleigur í landinu. Er það atvinnugreinin sem verst stendur? Af hverju eyðum við 1,5 milljörðum í þetta á árinu 2018 þegar við getum ekki hækkað barnabætur eða vaxtabætur eða gert betur við þá sem þurfa sannarlega á aðstoð að halda í landinu? Mér finnst þetta vera forgangsröðun hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem mér líkar ekki og auðvelt er að breyta.

Virðulegur forseti. Það er eitt og annað sem mætti ræða í þessu frumvarpi sem tími gefst ekki til. Auk þess hefur ekki gefist mikill tími til undirbúnings fyrir umræðuna þannig að hún mun örugglega verða engri og með fleiri og betri upplýsingum þegar frumvarpið kemur til 2. umr.