148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tekjuforsendur fjárlaga. Eins og endranær ræðum við þær breytingar sem gera á á skattkerfinu hvert ár. Það eru sennilega fá ríki jafn dugleg að breyta skattkerfi sínu jafn ört og mikið og við, og sennilega er fátt á Íslandi sem breytist örar en skattkerfið, nema kannski veðrið.

Við tölum í grunngildum fjármálastefnu um að það sé festa í ríkisfjármálum. Það þarf líka að vera festa í skattkerfinu. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki og hægt að gera áætlanir til lengri tíma litið. Það má alveg segja um þessa ríkisstjórn, eins og raunar þá síðustu og flestar þær sem á undan hafa komið, að vilji okkar til að breyta skattkerfi með engum fyrirvara sé allt of mikill. Við höfum engan fyrirsjáanleika eða langtímasýn á skattkerfið. Við erum tilbúin að henda fram breytingum korteri fyrir áramót ef það hentar stefnu í ríkisfjármálum þá stundina. Það er verulegur löstur í ríkisfjármálum hjá okkur og nokkuð sem við verðum að leggja af.

Það er dálítið skemmtilegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, tala fyrir réttlátara fjármagnstekjuskattkerfi með því að hækka hann. Það er vissulega nýr tónn frá Sjálfstæðisflokknum. Auðvitað hefur maður lúmskt gaman af að hlusta á þann boðskap. Það er líka dálítið gaman að horfa á ríkisstjórn Vinstri grænna, og þar með talið aðra Vinstri græna, styðja það að kolefnisgjaldið sé hækkað mun minna en efni stóðu til, í þá hægri sinnuðustu ríkisstjórn allra tíma, að sagt var, ekki hvað síst af hálfu þingmanna Vinstri grænna sem voru ekki par hrifnir af stefnu þeirrar ríkisstjórnar. Hún hefur þó ekki mikið breyst með komu þeirra inn í ríkisstjórn, að séð verði.

Horfum aðeins á fjármagnstekjuskattinn. Mér þykir áhugavert og ágætt að halda til haga þegar við ræðum hækkun hans, að í fyrsta lagi þegar fjármagnstekjuskattur var settur á á sínum tíma var lág skattprósenta fjármagnstekna rökstudd með óstöðugu efnahagsumhverfi og óstöðugum fjármagnstekjum. Að við værum að skattleggja nafnvexti í hárri sögulegri verðbólgu á Íslandi. Það hefur gjarnan gleymst í umræðunni að það á enn við. Þó svo að við höfum upplifað meiri stöðugleika og lægri verðbólgu á undanförnum árum er það fyrst og fremst af því að við erum á jákvæðri hlið þessa sama óstöðugleika, við sjáum mikla gengisstyrkingu á undanförnum árum sem hefur haldið verðbólgu niðri. Innlendi verðbólguþrýstingurinn er alveg jafn mikill og endranær. Við höfum enn þá ekki leyst þessa umræðu um hvernig við ætlum að reikna þennan gjaldstofn upp. Mér þykir ekkert sérstaklega góður bragur á því af hálfu nýrrar ríkisstjórnar að byrja á því að hækka skattinn en boða um leið að endurskoða eigi gjaldstofninn. Það færi miklu betur á því að hvort tveggja yrði þá gert í einu. Því að það hefur veruleg áhrif á heildaráhrif þessarar breytingar hver gjaldstofninn er. Að hræra í skattprósentunni í ár, gjaldstofninum á næsta ári, með mjög óljósum skilaboðum um hvað eigi að gera — ég held að það færi einfaldlega miklu betur á að ljúka þá málinu í heild sinni á næsta ári.

Sama má velta fyrir sér í umræðunni um kolefnisgjaldið. Nú má spyrja: Er þetta ekki bara enn ein skattahækkunartillagan að hætti vinstri manna? Nei. Hér erum við fyrir það fyrsta að reyna að leggja á skatta til þess að skapa hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við vitum að handan við hornið bíður okkar mögulega verulega fjárhagslega íþyngjandi gjaldtaka þegar við þurfum að kaupa losunarkvóta svo telur jafnvel vel á annað hundrað milljarða króna, ef ekki meira, miðað við þær áætlanir sem undirritaður hefur séð, til þess að mæta hallanum á því sem við höfum lofað að gera ef við náum ekki þeim markmiðum sem við höfum lofað.

Þá finnst mér umræðan um það hvort við erum að hækka skatta um 2 eða 4 milljarða á ári til að reyna að koma í veg fyrir þennan kostnað fyrir ríkissjóð innan rétts rúms áratugar ekki mjög stórvægileg. Ég held að það sé miklu skynsamlegra fyrir okkur að reyna að búa í haginn tímanlega. Við vitum að orkuskipti í samgöngum, minnkun kolefnislosunar frá samgöngum, er eitt stærsta tækifæri okkar til þess að standast þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist og höfum ítrekað, ánægjulega, í yfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, gengið jafnvel enn fastar fram í þeim skuldbindingum og markmiðum sem við ætlum að uppfylla.

Þess vegna þykir mér áhugavert að sjá að Vinstri græn styðja á sama tíma að helminga hækkun kolefnisgjalds frá fyrri áætlunum. Í því samhengi hefur verið nefnt að þetta sé mikill skattur á landsbyggðina. Ég hef ekki séð neinar tölur sem sýna með óyggjandi hætti að akstur á landsbyggð sé endilega meiri en akstur í þéttbýli. Þar er vissulega lengra á milli staða en daglegur akstur er ef til vill mun styttri á móti. Ég held að þeir sem aka mest búi sennilega í kragabyggðum höfuðborgarsvæðisins og sæki vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins, ef við horfum til Reykjaness, Selfoss, Akraness. Það væri þá nær að horfa á áhrifin þar. En þegar upp er staðið og miðað við þann kostnað sem reiknaður var, kostnaðaráhrif á heimilishald, held ég að þetta séu ekki risavaxnar tölur á ári þegar horft er á hagsmunina hinum megin, þ.e. hversu mikill kostnaður getur fallið á okkur sem samfélag ef við náum ekki að uppfylla skilyrðin. Þess vegna veldur þessi breyting vonbrigðum. Það eru líka vonbrigði að sjá að hætt sé við jöfnun á gjaldtöku á dísil og bensín. Tölur sýna okkur að það er meiri kolefnislosun frá dísilbifreiðum en bensínbifreiðum. Það er engin ástæða til að vera með minni skattheimtu. Það má jafna í ýmsar áttir. Það má líka miðla gjöldum þannig að í því felist ekki skattahækkun, ef það er vandamálið í þessu. En hér er einfaldlega hætt við að jafna stöðu þessara tveggja eldsneytisgjafa.

Þegar kemur að fyrirsjáanleikanum má líka spyrja sig varðandi þá skyndilegu ákvörðun núna að framlengja ívilnun fyrir bílaleigur. Hér var frétt fyrir tveimur, þremur vikum síðan um að verið væri að leigja sérstök skip til að flytja bílaleigubíla til landsins áður en undanþágan félli úr gildi. Ég geri ráð fyrir að þeir bílar séu jafn mikið á leiðinni til landsins — ef þeir eru ekki komnir — og fyrr. Það er sennilega til lítils gagns fyrir greinina að gera það með svona skömmum fyrirvara. Það er löngu búið að gera þar ráðstafanir til að mæta þessari skuldbindingu. Mér þykir afskaplega lítið í rökstuðninginn lagt ef horft er til þess að umhverfi ferðaþjónustunnar er miklu öflugra og sterkara en það var þegar ákvörðun um afnám þessarar undanþágu var tekin. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna verið er núna, korter í áramót, að slá þessu á frest. Það væri reyndar ágætt þegar við tölum um festu og fyrirsjáanleika í tekjuforsendum fjárlaga að við létum af þeim ósið líka að framlengja einhver bráðabirgðaákvæði um eitt ár í senn. Það er aldrei neitt gert í að vinna í endurskoðun, ef við horfum t.d. á vaxtabæturnar. Það er löngu tímabært að endurskoða það fyrirkomulag. Við rúllum hins vegar einhverju bráðabirgðafyrirkomulagi ár eftir ár og aldrei er nein vinna kláruð um hvernig framtíðarfyrirkomulagið eigi að vera.

Það væri þá nær lagi að framlengja það bara til þriggja ára í senn og setja um leið fram einhverja tímasetta áætlun um hvernig eigi að leysa það til lengri tíma litið.

Mig langar aðeins að koma að umræðunni um frítekjumark á atvinnutekjur aldraðra. Ég tek fram að það er mjög ánægjulegt að sjá að verið er að hækka frítekjumark á atvinnutekjur aldraðra. Það er í samræmi við stefnu síðustu ríkisstjórnar sömuleiðis. Ég tek hins vegar alveg undir þá umræðu þegar betur er að gáð að það er full ástæða til að einfaldlega afnema skerðingar vegna atvinnutekna. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af 75 ára auðuga forstjóranum í Garðabæ. Hann er alveg örugglega ekki með neinar greiðslur frá almannatryggingum því að forsenda lífeyrisgreiðslna frá almannatryggingum er að viðkomandi hafi hafið lífeyristöku frá sínum lífeyrissjóði. Ég ætla að forstjóri í Garðabæ með 900 þúsund krónur á mánuði, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi — ég held að þeir séu nú flestir allnokkru hærri — hafi bara alveg ágætislífeyrisrétt frá sínum lífeyrissjóði og að þær skerðingar sem þar eru muni klárlega tæma rétt hans til greiðslna frá almannatryggingum. Þessi tekjuhæsti hópur er ekki með greiðslur frá almannatryggingum, einfaldlega vegna þessa þannig að ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Hins vegar er alveg ljóst að það er verulegur hvati til atvinnuþátttöku aldraðra, hvati sem við viljum ýta undir. Við viljum ýta undir atvinnuþátttöku og skapa tækifæri fyrir atvinnuþátttöku aldraðra. Hvort það kostar okkur þá 1,5 milljarða að fara í 100 þúsund króna frítekjumark eða 2,5 milljarða að afnema það bara að fullu þá aðhyllist ég frekar einfaldara kerfið, að afnema það að fullu og segja: Fínt, það á vissulega að leyfa fólki að vinna og njóta þess sem það kýs.

Við skulum líka átta okkur á að það er mjög takmarkaður hópur, tiltölulega lágt hlutfall eldri borgara sem er með atvinnutekjur. Það er í tiltölulega skamman tíma. Atvinnuþátttöku eldri borgara sleppir eiginlega alveg þegar 73–74 ára aldri er náð, ef ég man rétt. Þetta er fyrst og fremst fólk, oft með mjög bágborin lífeyrisréttindi, sem er að reyna að drýgja tekjur sínar á fyrstu árum lífeyristökunnar. Það er ekkert athugavert við það.

Það eru tveir þættir sem ég hefði aðeins vilja nefna. Í bandorminum er verið að styrkja tekjur Fjármálaeftirlitsins eina ferðina enn, ef svo mætti segja. Á sama tíma er verið að lækka tekjur umboðsmanns skuldara, sem er eðlilegt, umfang þess embættis hefur minnkað verulega frá hruni, sem betur fer. Það er ánægjuleg þróun. Ég hef hins vegar áhyggjur af umfangi eða hálfgerðu stjórnleysi á umfangi Fjármálaeftirlitsins. Ég kalla eftir skoðunum ríkisstjórnarinnar á eldri hugmyndum í anda aukinnar skilvirkni í ríkisrekstrinum um að skoða sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka að nýju. Þegar við horfum til þess hvernig við getum nýtt fjármagnið betur held ég að það sé eitthvað sem við verðum að skoða.

Annar þáttur sem hér er farið yfir eru tekjubreytingar varðandi framlag í framkvæmdasjóð aldraðra, sem er hefðbundin verðlagsuppfærsla. En það er hins vegar sorglegt að sjá að ekki er tekið á vanda þessa sama framkvæmdasjóðs að í tíð ríkisstjórnarinnar 2009–2013 var töluverðum rekstrarkostnaði velt á þennan sama sjóð, sem kemur í raun og veru í veg fyrir að hann geti sinnt hlutverki sínu um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ég vona að horft verði til þess í umræðum um fjárlagahliðina hvernig við getum endurreist sjóðinn sem hefur orðið afskaplega takmarkaða getu til uppbyggingar.

En ég vona alla vega svo sannarlega að við til lengri tíma litið, í anda þeirra grunngilda sem við setjum okkur í ríkisfjármálastefnunni, í lögum um opinber fjármál, náum einmitt meiri festu í þetta skattkerfi okkar og hugsum það til lengri tíma og kynnum þá breytingar á því með lengri fyrirvara en við höfum vanið okkur á hingað til þannig að það séu þó alla vega eitt ár eða tvö í fyrirvara á þeim breytingum en ekki bara til þess að stoppa í fjárlagagat hvers árs. Ég held að það væri veruleg bragarbót á rekstri hins opinbera ef okkur tækist að koma því svo fyrir. Alveg óháð því hver stefna flokka er varðandi skattstigið sjálft held ég að við þurfum að temja okkur miklu betri vinnubrögð þegar kemur að því að breyta því og hvað þá þegar við erum að hræra í einstökum sköttum.