148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi lög eru reyndar orðið nokkuð eldri en eins árs. Þau voru samþykkt hér á Alþingi fyrir mína tíð í embætti dómsmálaráðherra eftir vinnu þverpólitískrar nefndar. Það lá hins vegar fyrir þegar þingið samþykkti lögin að um mikinn lagabálk væri að ræða. Það voru gerðar töluverðar breytingar á uppsetningu þeirra og lögin sjálf bera þess kannski að einhverju leyti merki að það hafi margir komið að samningu lagabálksins. Það getur verið óheppilegt þegar menn hafa ekki heildarsýn yfir þetta. Það lá nú alveg fyrir sumarið 2016. Menn gerðu sér grein fyrir því að það þyrfti að koma til einhverrar endurskoðunar í ljósi reynslunnar og framkvæmdar á lögunum. Það er óheppilegt. Það er auðvitað líka óheppilegt — menn þurfa svo sem ekki að leita til fjölmiðla með þessi mál. Svo við tökum sem dæmi það mál sem er hér til umræðu þá var það t.d. aldrei borið undir ráðuneytið, menn fengu ekki upplýsingar í ráðuneytinu um þennan ágalla heldur voru bara fluttar af þessu fréttir. Það er svo sem allt í lagi líka. Ég greip strax til aðgerða og svaraði því strax að það væri einboðið að breyta þessu.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir. Við höfum staðið hérna áður til þess að leiðrétta prentvillur og annað. Eins og ég segi, það er óhjákvæmilegt að endurskoða lagabálkinn. Ég bendi t.d. á það sem kom reyndar á óvart að Samtök iðnaðarins höfðu ekki gert athugasemd við það að iðnnámið hafði fallið þarna milli skips og bryggju, þannig að það voru mörg augu sem rýndu þetta og misstu af þessari misfellu.

Það liggur líka fyrir að það þarf að koma til frekari breytinga og skýringa á einstökum ákvæðum laganna. Ég hef til að mynda í hyggju að leggja fram frumvarp strax í janúar þar að lútandi með nokkrum tilteknum lagatæknilegum breytingum.

Eins og ég nefndi við þingið í haust og endurtek það hér þá mun ég boða aftur til þverpólitísks samráðsvettvangs þeirra flokka sem sitja á þingi sem falið verður að rýna áfram þennan mikla lagabálk.