148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem komið hefur fram hér. Ég fagna þeirri breytingartillögu sem komin er fram og við styðjum hana.

Mig langar aðeins að árétta hugmynd af því að við erum að tala um dvalarleyfi barna námsmanna. Í núgildandi lögum eru þær hömlur að undantekningar kveða aðeins á um námsmenn sem stunda framhaldsnám á háskólastigi. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á virðast lögin svolítið sniðin að þeim hópi.

Við tölum mikið um það að við erum að hefja iðnnám og slíkt til vegs og virðingar. Svo er líka staðreynd að sú breyting hefur orðið á mannlegu samfélagi að fólk er farið að fara í nám á öllum aldri, jafnvel grunnnám, þar af leiðandi fólk með börn. Ein af ástæðunum fyrir því að við erum sífellt að krukka í þennan flókna lagabálk er að verið er að telja upp ítrekað hverjir eiga réttindi og undanskilja einhverja sem ekki eiga réttindi. Er ekki bara ástæða til að skoða það í eitt skipti fyrir öll að dvalarleyfi fólks vegna náms veiti jafnframt börnum þeirra námsmanna undantekningarlaust dvalarleyfi á meðan? Er einhver ástæða til að tilgreina þar að eitthvert nám sé merkilegra en annað og fólk fái þá að stunda það nám með börnin sín nálægt sér?

Mig langaði til að athuga hvort hæstv. ráðherra gæti ekki tekið undir að það væri upplagt að nota tækifærið núna og taka þessar undantekningar út. Við erum að tala um tímabundið atvinnuleyfi hvort sem er. Þetta er þá bara dvalarleyfi erlendra ríkisborgara sem stunda hér nám. Eigi þeir börn þá megi þeir bara vera með börnin sín hér á meðan.