148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[13:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla og fleiri lögum. Tilefni þess er að 1. janúar nk. taka gildi grundvallarbreytingar á íslensku réttarfari með því að Landsréttur tekur til starfa eins og kunnugt er. Það er því nauðsynlegt að bregðast við breyttum aðstæðum síðan Alþingi samþykkti þann 26. maí 2016 tvö lagafrumvörp er komu á fót millidómstigi hér á landi, auk þess sem rétt er að skerpa á nokkrum atriðum er varða tæknilegar útfærslur á réttarfarslöggjöf.

Ég mun nú víkja að helstu atriðum sem snúa að efni og áherslum frumvarpsins, en þeim má að meginstefnu skipta í fernt.

Í fyrsta lagi er lögð til með frumvarpi þessu tímabundin heimild, frá 1. janúar 2018 til 1. júlí 2019 til þess að setja dómara við Hæstarétt Íslands ef dómari er forfallaður eða hefur verið veitt leyfi frá störfum. Jafnframt er gert ráð fyrir að á sama tímabili verði heimilað að setja svonefnda varadómara við réttinn til þess að taka sæti í einstökum málum.

Með nýjum dómstólalögum sem taka gildi þann 1. janúar 2018 var ákveðið að fækka dómurum við Hæstarétt úr tíu í sjö á þann hátt að ekki verður skipað í þau embætti sem þar losna þangað til tilskilinni fækkun verður náð. Við þær breytingar var lagt til grundvallar að það tæki nokkurn tíma að ná umræddri fækkun og hún yrði ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en eftir að breytt starfsemi Hæstaréttar væri komin í fastar skorður, þar á meðal að fækkun mála sem hann fær til meðferðar hefði átt sér stað.

Tveir hæstaréttardómarar létu hins vegar af störfum á haustmánuðum 2017, nú í haust, og er því ljóst að dómarar við réttinn verða einungis átta hinn 1. janúar nk. Þar af má gera ráð fyrir að einn dómari verði að jafnaði í námsleyfi eins og heimild stendur til samkvæmt úrskurði kjararáðs frá desember 2015. Af þeim sökum er lögð til tímabundin heimild til að setja dómara og varadómara við Hæstarétt svo að unnt verði innan hæfilegra tímamarka að ljúka þeim einkamálum sem áfrýjað hefur verið til réttarins fyrir 1. janúar nk.

Í öðru lagi er lögð til sérstök tímabundin heimild fyrir ráðherra til að veita dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður standa til þess, en þó ekki lengur en til þriggja mánaða.

Eins og áður er getið tekur Landsréttur til starfa þann 1. janúar og tekur skipun dómara við réttinn gildi við það tímamark. Við gildistöku þeirra laga verður jafnframt sú breyting á að leyfisveitingar dómara, sem fram til þessa hafa verið á hendi ráðherra, verða eftirleiðis í umsjón og á ábyrgð dómstólasýslunnar en sú stofnun mun þó eðli málsins samkvæmt einungis fara með þær valdheimildir frá gildistöku laganna, þ.e. frá 1. janúar nk.

En nú háttar svo til að einn þeirra sem hlotið hefur skipun sem dómari við Landsrétt hefur síðastliðna mánuði verið settur ríkissaksóknari í svonefndum Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Núna er orðið ljóst að meðferð þessara mála verður ekki lokið þann 1. janúar nk. þegar Landsréttur tekur til starfa og skipunartími umrædds dómara tekur gildi.

Af augljósum ástæðum þykir ekki rétt að sami einstaklingur gegni embættum landsréttardómara og setts ríkissaksóknara samhliða, en aftur á móti standa allar hagkvæmnisástæður til þess að hann ljúki störfum sem settur ríkissaksóknari fremur en að til starfans verður settur nýr einstaklingur enda er um afar umfangsmikil mál að ræða og sérstök.

Í því ljósi er lagt til að lögfest verði sérstök heimild til handa ráðherra til að veita skipuðum dómara við Landsrétt leyfi, ef sérstakar ástæður standa til þess, til allt að þriggja mánaða óski dómari slíks leyfis fyrir 1. janúar 2018. Heimildin er eðli málsins samkvæmt tímabundin þar sem gert er ráð fyrir að meðferð málanna ljúki í Hæstarétti snemma árs 2018. Rétt er að árétta að í frumvarpinu er jafnframt tekið fram að ekki verði settur dómari í stað landsréttardómara sem fær leyfi á grundvelli þessarar heimildar. Er það nú með vísan til þess að málaálag Landsréttar verður ekki þvílíkt fyrstu þrjá mánuði ársins.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á fyrirkomulagi öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti hvað varðar þá lögmenn sem hafa flutt að minnsta kosti eitt prófmál fyrir réttinum þann 1. janúar nk.

Þegar löggjöf sú sem kemur á fót millidómstigi hér á landi var samþykkt árið 2016 var ráðgert að öll mál, bæði sakamál og einkamál, sem áfrýjað hefði verið til Hæstaréttar þann 1. janúar 2018, myndu færast til Landsréttar þegar hann tæki til starfa. Frá því fyrirkomulagi var aftur á móti fallið síðar og ákveðið að öllum einkamálum sem áfrýjað er til Hæstaréttar áður en Landsréttur tekur til starfa verði lokið í Hæstarétti.

Nú er áætlað að þessi mál verði um 260 talsins — þau gætu orðið fleiri — og er ljóst að nokkur hluti þeirra mun uppfylla skilyrði prófmáls samkvæmt gildandi löggjöf. Þykir í því ljósi eðlilegt að gefa lögmönnum sem hafa flutt a.m.k. eitt prófmál fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 kost á að ljúka öflun málflutningsréttinda fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum kjósi þeir það.

Þá er í fjórða lagi að finna í frumvarpinu ákvæði er skerpa á atriðum er varða kærur og áfrýjanir einkamála og ákvæði er stuðla að hagkvæmni réttarins, þ.e. Hæstaréttar. Hér er fyrst og fremst um að ræða tæknilegar útfærslur á réttarfarslöggjöf sem ekki er ástæða til þess að víkja að í smáatriðum.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.