148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að dómstólasýslan, sem nýverið réði framkvæmdarstjóra, muni móta sér einhverja stefnu og að vinna við það sé hafin. Hlutverk dómstólasýslunnar er skýrt og lögum samkvæmt og það er nú töluverð stefnumótun sem felst í því. Landsréttur er fyrir löngu fjármagnaður. Kveðið er á um það í lögum um Landsrétt, um fjármagn til hans. Fjármagn hefur verið veitt til undirbúnings Landsréttar á þessu ári til að mynda og að nokkru leyti á árinu þar áður. Landsréttur, eins og annar rekstur allra dómstóla, er að sjálfsögðu fjármagnaður í fjárlögum og gert ráð fyrir því, enda ein grundvallarstoð réttarríkisins. Það kemur ekki annað til en að starfsemi dómstólanna sé fjármögnuð.

Hvað upplýsingakerfin varðar: Hv. þingmaður hefur áður spurt mig að þessu. Það er gott að menn hafi áhuga á upplýsingakerfi dómstólanna. Það hefur verið mjög til umræðu hér. Ég hef nefnt það sem sérstakt áhugamál mitt að flýta rafrænni stjórnsýslu í kringum dómstólana alla. Það gefst tækifæri til þess núna með tilkomu nýs millidómstigs sem verður nýjustu tækjum og tólum búið. Í því sambandi hefur nokkur endurnýjun orðið og veruleg endurnýjun verður að eiga sér stað hjá héraðsdómstólunum á tölvubúnaði og öðru. Ég geri ráð fyrir að öll þessi tæki verði tilbúin þegar Landsréttur tekur til starfa núna um áramótin og að heilmikil vinna muni fara fram á næsta ári og á næstu árum hjá dómstólunum er lýtur að upplýsingatækni.