148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

5. mál
[14:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fjölyrða mikið um eldgos, sem mér eru ansi hugleikin, en ég ætla ekki að ræða þau hér, heldur ætla ég í mesta bróðerni að ræða við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um hamfarasjóð til að skýra betur bakgrunn þess frumvarps sem nú liggur fyrir. Þegar árið 2012 var farið að ræða stofnun nýs sjóðs sem myndi sameina ýmis hlutverk og verða þar með um leið, ef aukið fjármagn fengist, öflugri bakhjarl í þessum málum. Samin var skýrsla. Hún var lögð fram í janúar 2016 um svokallaðan hamfarasjóð og ákvað ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 16. febrúar 2016 að hefja þá vinnu. Settur var á fót starfshópur.

Ég ræddi þessi mál við þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Björt Ólafsdóttur héðan úr ræðustól. Hlutverk hamfarasjóðs átti þá að vera svipað og við ræðum hér. Þetta áttu að vera forvarnir, sem samanstanda náttúrlega af rannsóknum að hluta til, af uppsetningu vöktunarkerfis og reksturs o.s.frv., og uppsetningu brottflutnings- og viðbragðsáætlana. Samhæfa átti verkefni vegna náttúruvár. Ef til kæmi átti þessi sjóður einnig að geta greitt hluta tiltekins kostnaðar ríkissjóðs ef til mikilla hamfara kæmi. Fjármögnun átti að vera frá ofanflóðasjóði úr A-deild Bjargráðasjóðs. Það var jafnvel verið að tala um hluta viðlagatryggingar líka o.s.frv. þannig að þetta var orðinn gildur sjóður. Meðalkostnaður ríkisins við hamfarir undanfarinna ára hafa verið tæplega 500 milljónir á ári, sem sýnir umfangið á þessu verkefni.

Frumvarpið samkvæmt þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra átti að vera tilbúið núna í árslok. Það hefur ekki gerst. Þess vegna lít ég svo á að þessi redding sé komin og auðvitað er mjög jákvætt skref að tryggja að fjármagn fáist í þessi mikilvægu verkefni. En það væri gott að fá skýringu á því hvers vegna þetta hefur farið svona og hvað hefur orðið um þennan ágæta hamfarasjóð, ef hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra gæti svarað því núna eða þá seinna. Ég þarf ekki að nefna það hér að þingnefndir munu auðvitað meðhöndla þetta frumvarp með ákaflega jákvæðum hætti. Það er meira þannig að við viljum fá að vita eitthvað um örlög hamfarasjóðs.