148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

11. mál
[14:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sem felur í sér breytingar á þeim ákvæðum laganna er varða fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Markmið frumvarpsins er að fasteignasjóði verði falið varanlegt hlutverk við jöfnun á aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu á fasteignum sem nýta á í þjónustu við fatlað fólk með miklar og sértækar stuðningsþarfir. Verði þannig komið til móts við brýna þörf fyrir stuðning við uppbygging sveitarfélaganna á þessu sviði.

Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var komið á fót í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Sjóðurinn tók þá yfir fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk og hefur hlutverk hans verið að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga með því að leigja eða selja þeim fasteignirnar til slíkra afnota. Jafnframt tók sjóðurinn yfir eignir, réttindi og skyldur Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem lagður var niður við þetta tilefni.

Við yfirfærslu málefna fatlaðs fólks tók fasteignasjóður þannig við samtals 76 fasteignum sem metnar voru á um 3,5 milljarða kr. samkvæmt fasteignamati. Þessar fasteignir hafa nú nær allar verið seldar, flestar til sveitarfélaganna. Einungis ein fasteign er nú eftir í fasteignasjóðnum og er gert ráð fyrir að hún verði seld innan skamms.

Tekjur fasteignasjóðs af skuldabréfum í hans eigu námu um 130 millj. kr. á árinu 2016. Þá hefur hann á hverju ári fengið framlag af tekjum jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðs fólks sem samsvarað hafa því árlega framlagi sem ríkissjóður lagði til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á sínum tíma, eða um 400 millj. kr. á ári. Sjóðnum eru því tryggðar reglulegar tekjur til uppbyggingar í málaflokknum. Þá hafa nokkrir fjármunir safnast fyrir í sjóðnum sem komið hafa til vegna sölu og leigu fasteigna.

Þó að upphaflegu verkefni fasteignasjóðsins sé nú nær lokið er enn rík þörf á að jafna aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu fasteigna sem nýta á í þjónustu við fatlað fólk, m.a. út frá þeirri verkaskiptingu sem er á milli þjónustukerfis í málefnum fatlaðs fólks og hins almenna húsnæðiskerfis á þessu sviði. Er í frumvarpinu lagt til að fasteignasjóðnum verði áfram falið það hlutverk að sinna slíkri jöfnun þótt í breyttri mynd sé, og til þess verkefnis verði nýttar tekjur fasteignasjóðs og þeir fjármunir sem safnast hafa í hann.

Efni frumvarpsins er í samræmi við viljayfirlýsingu sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirritaði ásamt félags- og jafnréttismálaráðherra og forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga í júlí sl. Eru aðilar sammála um að verði frumvarpið að lögum muni það hafa mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu sveitarfélaga á húsnæðisúrræðum til þjónustu við fatlað fólk.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.