148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[14:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það að við skulum ræða þessi þrjú mál hér saman. Ég held að það sé skynsamlegt, bæði í ljósi eðlis þessara þriggja mála og líka í ljósi stöðunnar í þinginu og þess knappa tímaramma sem við höfum.

Ég hafði hugsað mér að fara mjög lauslega yfir efni þessara mála enda hafa þau áður verið til umfjöllunar í þinginu, en kannski frekar að fara yfir hvernig við getum séð fyrir okkur að þessi mál geti unnist í framhaldinu. Það er auðvitað svo að þessi þrjú mál tengjast. Við erum í fyrsta lagi með frumvarp um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum vegna framlengingar bráðabirgðaákvæðis um notendastýrða persónulega aðstoð. Þannig er að þetta er bundið í bráðabirgðaákvæði í dag og það rennur út nú um áramótin. Þetta frumvarp verðum við sem þing að klára fyrir áramót.

Þeir 55 samningar sem í gildi eru núna eru gerðir á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis með lögum um málefni fatlaðs fólks og rennur gildistími þeirra út um áramótin. Því er nauðsynlegt að tryggja að bráðabirgðaákvæðin haldi gildi sínu þar til ný heildarlög taka gildi sem meðal annars lögfesti ákvæði um rétt til NPA. Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að þessum samningum verði fjölgað í 80 á árinu 2018. Það er sú fjölgun sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem við ræddum í gær.

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski ekki að fara neitt dýpra ofan í þetta mál nema bara að undirstrika mikilvægi þess að það verði klárað fyrir áramót. Bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir að þessi þjónusta framlengist út árið 2018 en ég legg líka áherslu á að það er mjög brýnt að þingið geti tekið hin tvö málin sem við erum með til afgreiðslu og að hv. velferðarnefnd reyni að vinna þau hratt og vel. Hann hefur verið mjög bagalegur sá pólitíski óstöðugleiki sem verið hefur, kosningar með stuttum fyrirvara og annað, mjög slæmt fyrir þessi tvö mál. Þeir sem voru á þingi á síðasta kjörtímabili, á því stutta kjörtímabili, vita að við lok þess þings var undirrituð yfirlýsing um hvaða feril málið ætti að fara í. Undir þá yfirlýsingu rituðu fulltrúar allra flokka.

Þar var getið um nokkur atriði sem ráðuneytið átti að vinna að þar til þing kæmi saman að nýju. Algerlega er skýrt kveðið á um það í þessu samkomulagi, sem var undirritað 27. september 2017, að menn sammæltust um að þessi tvö frumvörp, stærri málin, yrðu lögð fram sem frumvörp strax og þing kæmi saman að nýju eftir kosningar, annaðhvort sem stjórnarfrumvörp eða flutt af þingnefnd eða þingmönnum þeirra flokka sem að málinu standa. Undir þetta rituðu allir flokkar.

Mér fannst mjög brýnt að þessi mál kæmu fram hér í þinginu strax á fyrstu dögum þess. Það er eitt og annað í þessum málum sem er þess eðlis að það þarf að skoða það. Sumt af því hefur skýrst í vinnslu ráðuneytisins. Fyrsta verk mitt var að kalla saman í ráðuneytið fulltrúa allra flokka, líkt og kveðið var á um í þessari yfirlýsingu, sem undirrituð var 26. september, til að fara yfir stöðu málsins. Það gerði ég strax á þriðja degi í ráðuneytinu. Sá fundur gekk ágætlega en ljóst var að skoðanir voru skiptar um hvaða málsmeðferð þessi mál ættu að fá hér í þinginu. Mér fannst niðurstaða þess fundar vera sú að það væri gríðarlega mikilvægt að þessi mál kæmu fram strax og færu hér til umræðu, færu í hv. velferðarnefnd og bráðabirgðaákvæðin yrðu samþykkt, þau lög, en það yrði mat nefndarinnar hvað hægt væri að gera í hinum tveimur málunum.

Ég fór yfir hver staðan er á þeirri vinnu, til að mynda reglugerðarsmíði og öðru, handbók og reglugerðum og öðru sem ráðuneytið átti að vinna frá kosningum. Staðan er sú að það eru sex reglugerðir sem liggja fyrir í drögum í ráðuneytinu. Þær eru um þjónustu- og búsetuúrræði fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir, um notendastýrða persónulega aðstoð, um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma, um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk, um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum og um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með stuðningsþarfir. Ég hef lagt mikla áherslu á það í ráðuneytinu að settur sé kraftur í þessa vinnu, að þessi mál vinnist sem hraðast. Dagana 13.–18. desember verða fyrstu samráðsfundirnir um þessi reglugerðardrög haldnir. Í annarri til þriðju viku nýs árs er gert ráð fyrir að næstu fundir verði haldnir þar sem búið verði að vinna úr þeim athugasemdum sem lagðar voru fyrir fund hvers samráðshóps.

Ég held að það sé mjög skynsamlegt að velferðarnefnd fái mjög góða og ítarlega kynningu á þessum reglugerðum, á stöðu handbókarvinnunnar sem líka hefur verið í gangi. Ég veit að það liggur fyrir, klárist þessi umræða í dag og verði þessum málum vísað til hv. velferðarnefndar, að ráðherra, ásamt því starfsfólki í ráðuneytunum sem hefur verið að vinna að þessum málum, komi á fund velferðarnefndar á mánudaginn. Ég legg líka áherslu á að samhliða því sem þessi tvö stærri mál verða unnin áfram verði því samráði viðhaldið sem kveðið var á um í þessari yfirlýsingu.

Þetta var aðeins yfirlit yfir stöðu málsins, vinnsluna og annað. Ég hef þegar rætt þetta við formann og varaformann velferðarnefndar og vænti góðs samstarfs við þá hv. þingmenn við vinnslu málsins.

Ég ætla samt aðeins að leyfa mér að fara yfir þessi tvö mál. Í fyrsta lagi er það frumvarpið sem er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um málefni fatlaðs fólks sem eru frá árinu 1992. Eins og fram hefur komið var það frumvarp lagt fram á 146. og 147. þingi en varð ekki útrætt og er því lagt hér fram að nýju. Meginmarkmið breytinganna í þeim er að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Samhliða frumvarpinu er frumvarpið sem ég geri grein fyrir hér á eftir, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Bæði þessi frumvörp byggja á vinnu starfshóps sem skipaður var af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra og hafði það hlutverk að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeim tillögum var skilað í október 2016. Ég ætla að fara yfir nokkur helstu efnisatriði þessa frumvarps en þó hleyp ég yfir það svo að ekki gefst tími til að fara mjög djúpt í það.

Í frumvarpinu er lagt til að heiti laganna verði: Lög um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, og þau komi í stað gildandi laga um málefni fatlaðs fólks. Ástæða þessarar nafngiftar er sú að undirstrika að hér er um þjónustulög að ræða og hins vegar að þeim er ætlað að mæta einstaklingum sem eru með þjónustuþarfir, svo að þeim verði mætt með almennum hætti. Er því lagt til að um almenna þjónustu við fatlað fólk gildi ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum þeirra laga, eins og áður hefur fram komið. Er þannig almennri stoðþjónustu gert hærra undir höfði og lagt til að mörkin liggi u.þ.b. við 10–15 klst. þjónustuþörf á viku.

Í markmiðsákvæði frumvarpsins og skilgreiningum er gengið út frá ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá er í frumvarpinu tekið á gráu svæði sem myndast hefur milli laga um málefni fatlaðs fólks og laga um málefni aldraðra þar sem einstaklingur sem orðinn er 67 ára getur átt rétt samkvæmt báðum lögum.

Stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra hafa verið endurskoðaðar og styrktar í frumvarpinu, m.a. þannig að ráðherra getur nú skorið úr um ágreining um hvort reglur sveitarfélags eigi sér fullnægjandi lagastoð. Þá er kveðið á um að ráðherra skuli veita einkaaðilum starfsleyfi sem hafi það markmið að veita fötluðu fólki þjónustu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að fatlað fólk skuli eiga rétt á fjölbreyttri þjónustu sem komi til móts við tilteknar þarfir þess. Þar er meðal annars að finna nýmæli um notendasamninga og notendastýrða persónulega aðstoð, eða NPA, auk ákvæða um einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir og þjónustuteymi. Ákvæði um NPA er unnið á grundvelli tillagna frá verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð sem starfaði frá árinu 2011 til loka árs 2016.

Í frumvarpinu er að finna nokkur nýmæli um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem lúta annars vegar að frístundaþjónustu við fatlaða nemendur og hins vegar að úrræðum fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Ákvæði um atvinnumál eru færð til samræmis við viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks, dags. 28. september 2015, sem byggist á þeirri stefnu að um atvinnumál fatlaðs fólks skuli fara eins og um atvinnumál almennt.

Þá er kveðið á um að starfrækja skuli samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og lagt til að lögfest verði skylda ráðherra til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Ákvæði um málsmeðferð hafa einnig verið endurskoðuð.

Þetta eru helstu atriði í þessu máli. Síðan er það hitt málið sem við ræðum hér samhliða. Það er frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem eru frá árinu 1991 með breytingum síðan. Þessi mál voru líka lögð fram á 146. og 147. þingi en urðu, eins og áður sagði, ekki útrædd og eru því lögð fram hér að nýju.

Meginmarkmið breytinganna hér er að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp um nýja heildarlöggjöf um þjónustu við fatlað fólk. Aðrar breytingar snúa að nauðsynlegum breytingum laganna vegna þróunar á sviði annarra laga.

Frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var árið 2014 og hafði það hlutverk að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sá hópur skilaði, eins og áður sagði, tillögum í október 2016. Helstu breytingar á ákvæðum laganna eru að skipulag og stjórn og hlutverk félagsmálanefndar er fært til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Það er líka hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra, m.a. með því að fela honum að úrskurða í ágreiningsmálum sem lúta að því hvort reglur sveitarfélagsins eigi sér fullnægjandi lagastoð. Breytingarnar lúta einnig að því að skýra feril ágreiningsmála og málskots innan stjórnkerfisins.

Í öðru lagi er í frumvarpinu að finna ákvæði um samráð við notendur þjónustunnar og sérstök notendaráð fyrir einstaka hópa en það er í fyrsta sinn sem kveðið er á um slíkt í lögunum. Í því felst mikil valdefling fyrir notendur þar sem þeir fá að hafa áhrif á þá stefnu sem sveitarfélögin hafa en einnig tækifæri sveitarfélaganna til að laga þjónustu betur að þörfum þeirra sem nota hana.

Í þriðja lagi er fjallað um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu sem fjallað er um í lögunum. Eru ákvæðin færð til samræmis við ákvæði sem lögð eru til í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi og ég fór yfir hér áðan.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um félagslega heimaþjónustu á þann hátt að þjónustan verði ekki bundin við heimili heldur nái til þjónustu við athafnir daglegs lífs og til að rjúfa félagslega einangrun. Þjónusta þessi er fyrir alla sem hafa viðvarandi eða tímabundnar stuðningsþarfir, en gengið er út frá því að þegar þjónustuþarfir verði meiri en sem nemur 10–15 tímum á viku taki við sértækari þjónusta, m.a. á grundvelli frumvarps þess sem lagt er fram samhliða þessu, um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Þá skal einstaklingur eiga möguleika á að gera notendasamninga sem fela í sér að notandinn hefur stjórn á því hvernig og hvenær hann fær þjónustu. Var í þessu horft til hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf, samanber 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Í fimmta lagi eru ákvæði um akstursþjónustu, sem verið hafa í lögum um málefni fatlaðs fólks, skýrð og flutt í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem um almenna þjónustu er að ræða fyrir fatlað fólk, óháð því hversu miklar aðrar þjónustuþarfir eru.

Að lokum er ákvæðum um húsnæðismál breytt til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem ætlunin er að leggja fram aftur. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi á 145. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Er þar lagt til að kveðið verði með almennum hætti á um skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum í lögum um húsnæðismál, en í lögum um félagsþjónustu verði fjallað um úthlutun á félagslegum íbúðum.

Virðulegur forseti. Þetta eru meginatriði þessara tveggja mála. Það er stiklað á stóru þegar farið er í gegnum þetta. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að öll sú vinna sem fram undan er sé unnin í sem bestri sátt við velferðarnefnd. Ég vil líka segja að margt af því sem komið hefur fram um þetta mál er þess eðlis, eða gagnrýnisraddir eru þess eðlis, að það er löggjafans að svara ákveðnum spurningum, eins og varðandi kostnaðarhlutdeild og fleira. Þetta byggir á gríðarlega löngu samráðsferli milli mjög margra aðila. Það hefur verið mat velferðarráðuneytisins, og þeirra sem hafa komið að þessari vinnu þar, að gríðarlega erfitt sé að ætla að raska ákveðnum hlutum öðruvísi en að þessu samráði sé öllu raskað; eða að þeirri vinnu sem var þar að baki væri að einhverju leyti raskað.

Þetta var mat forvera míns sem var í ráðuneytinu og hefur komið fram í minnisblöðum og öðru sem hefur komið hingað til þingsins. Ég deili þeirri skoðun eftir að vera búinn að fara yfir vinnslu málsins og þau atriði sem koma fram í yfirlýsingu sem undirrituð var hér við þinglok. Þess vegna koma þessi mál ekki mjög mikið breytt inn til þingsins. Ég fann líka, þegar ég fundaði með fulltrúum allra flokka, að talsvert margir þingmenn voru á þeirri skoðun að þessi lög væru þess eðlis að þingið yrði að svara ákveðnum spurningum og svo yrðum við bara að klára þetta mál. Það liggur líka ljóst fyrir að svona umfangsmiklar og stórar breytingar kalla á lifandi samráð á næstu árum. Þar verða ráðuneytið, notendur þjónustunnar og aðrir, Alþingi, að vera opnir fyrir því að það muni örugglega koma upp mál sem þessu tengjast, og líklega mál sem engum dettur í hug að muni koma upp við vinnslu málanna. Þá verðum við sem löggjafarþing og framkvæmdarvald að vera tilbúin til að bregðast skjótt við og vera opin fyrir því að þetta geti orðið.

Það eru mál sem mér finnst persónulega að við hefðum þurft að skoða og ég hef átt samtöl við nokkra þingmenn um það. Það snýr meðal annars að þeirri hættu að menn fari að veita þjónustu í hagnaðarskyni. Því finnst mér að menn þurfi að velta fyrir sér. Ég segi það algerlega skýrt hér að það má aldrei verða hugsunin þarna á bak við. Ég skoðaði það á þessum knappa tíma hvort hægt væri að gera einhverjar ráðstafanir eða breytingar en það er eins með það — allt lýtur þetta að löngu samráðsferli þar sem menn hafa verið að miðla málum og komist að sameiginlegri niðurstöðu — að allar slíkar breytingar kalla á talsvert langt samráðsferli á nýjan leik.

Ef við hugsum tímarammann fram undan: Eins og ég sagði áðan legg ég til að þessum málum verði vísað til hv. velferðarnefndar. Ég legg áherslu á að við verðum að klára bráðabirgðaákvæðið. Ekki mun standa á því að velferðarráðuneytið, og þeir sem hafa verið að vinna í málum þar, komi að og aðstoði eins og hægt er til að afgreiða þessi mál hratt og vel. Við megum ekki lenda í því aftur að við náum ekki að klára þessi mál og lendum í því í árslok á næsta ári að þurfa að framlengja bráðabirgðaákvæðið.

Þetta er ákall til þeirra þingmanna sem sitja í velferðarnefnd og til þingheims alls að við förum í þessa vinnu, að menn fari vel ofan í þetta mál og reyni að vinna það eins hratt og mögulegt er. Sá sem hér stendur eða starfsmenn ráðuneytisins eru tilbúnir til að koma að og aðstoða með hvaða hætti sem er á hvaða stigum sem er. Ég legg mikla áherslu á að sú vinna sem snýr að reglugerðum og handbókum og öðru sé unnin hratt og vel á fyrstu vikum og mánuðum nýs árs þannig að hugsanlega verði hægt að lögfesta bæði þessi mál snemma á nýju ári.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessum málum verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar. Takk fyrir.