148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég kem hér fyrst og fremst upp til að hnykkja á nokkrum atriðum. Hér er gríðarlega mikilvægt mál á ferðinni. Mikilvægi löggjafarinnar er mjög mikið fyrir nokkuð stóran hóp þjónustuþega. Við erum að leggja af stað í lagasetningu á grundvallarlöggjöf til langs tíma. Ég held að þess vegna sé rétt afar mikilvægt að velferðarnefnd vandi sig, taki sér þann tíma sem hún þarf en dragi ekki lappirnar.

Ég var á þingi þegar löggjöfin um málefni fatlaðs fólks var sett á sínum tíma. Þá náðist um það þverpólitísk samstaða í þinginu. Allir þingmenn velferðarnefndar á þeim tíma voru með á málinu og á álitinu. Mig langar fyrst og fremst að inna ráðherrann eftir því hvort hann telji það sé ekki afar mikilvægt. Þó að þetta sé sannarlega pólitískt mál þá er hér ekki um mál að ræða sem við ættum að flokka sem flokkspólitískt. Þetta er réttindamál og því er afar mikilvægt að samstaðan um það sé góð.

Ég fagna því sem fram kom í máli ráðherrans að fjölga eigi samningunum og að samhliða þessu verði hnýttir þeir endar í félagsþjónustulögunum sem skipta máli með tilliti til (Forseti hringir.) samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.