148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:11]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Aðeins varðandi hagnaðardrifnu sjónarmiðin: Maður skyldi ætla að ekki sé hætta á því vegna þess að sveitarfélögin ættu að leita hagkvæmustu leiða hvað það snertir. En ég vil bara ítreka, svo það sé sagt hér, að mér finnst að ef löggjafarvaldið getur ekki gripið inn í og gert þarna einhverjar breytingar, sem kann að vera erfitt miðað við stöðu málsins, þurfum við að fylgjast vel með þessu á fyrstu árunum og vera þá tilbúin til að grípa inn í. Allt sem við segjum í þessari umræðu skoðast sem lögskýringargögn í því efni. Ég bara segi eins og er: Þetta er eitthvað sem við þurfum að vakta.

Varðandi málefni sem snúa að réttindum starfsfólks og stöðu fjölskyldna og annað, það er eitt af því sem komið er inn á í reglugerðunum og okkur gefst því miður ekki tíma til að ræða hér í dag. En það þarf auðvitað að kynna fyrir hv. velferðarnefnd við vinnslu málsins.