148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina og spyr hvort hann samþykki þá túlkun mína á ræðu hans að það sé hans skýri vilji að þetta mál verði afgreitt, að við sjáum málefnum er tengjast NPA-þjónustunni komið í ákveðinn farveg og úrræðin fari að virka, að við séum ekki enn og aftur að tefja málið með einhverjum lagatæknilegum rökum sem eru oft á tíðum að mínu mati í raun ekki til staðar. Því hvað blasir við hér? Það sem blasir við er að við erum í raun að ræða sama efnið og sama frumvarpið og var stoppað á sínum tíma. Hvað segir það manni? Jú, það segir mér, því miður, og þá var hæstv. ráðherra ekki kominn hingað inn á þing, að það var stjórnarandstaða með Vinstri græna og Framsókn í broddi fylkingar sem einfaldlega stoppaði málið á þeirri forsendu að það þyrfti að skoða það betur, laga það o.s.frv. Síðan er þetta meira og minna komið óbreytt fram hérna. Auðvitað átti alltaf að vinna þetta og klára þetta. Þess vegna ítreka ég: Þetta er stjórnarandstaða sem ég vil ekki bjóða upp á. Ég vil ekki hafa það þannig að góðum málum megi ekki koma í gegn því hugsanlega sé einhver flokkur sem geti sagt: Já, ég barðist fyrir því. Mér finnst gott ef þetta mál klárast á vakt þessarar ríkisstjórnar. Þetta er mál sem þarf að klárast. Þess vegna finnst mér skipta gríðarlega miklu máli að fá fram skýran vilja ráðherra til þess að óska eftir því að velferðarnefnd klári málið í þágu þeirra sem kalla eftir þjónustu í tengslum við NPA.