148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra gat réttilega um það í ræðu sinni að lifandi samráð og samvinna er mikilvæg. Við tökum undir það. Við viljum leggja okkar af mörkum hvað það varðar. Það má hins vegar ekki vera eitthvert pottlok eða bremsa á það að á endanum þarf að taka ákvörðun og hafa kjark til þess. Fyrr í dag ræddum við útlendingamálin. Þetta er alltaf einhver bútasaumur hjá okkur. Þá verður Alþingi að vera fljótt að bregðast við. Það sem gengur ekki lengur, og þess vegna vil ég hvetja ekki síst Sjálfstæðisflokkinn til þess að halda stjórnarflokkunum við efnið í þessu máli, því það var Sjálfstæðisflokkurinn sem barðist líka fyrir því að klára NPA fyrr á árinu en er kominn núna í ríkisstjórn með flokkum sem töfðu málið, að halda fólki við efnið. Það skiptir gríðarlega miklu máli. En um leið vil ég þakka nýjum félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir að setja hér fram skýran vilja sinn í þá veru að þetta mál komist í gegn því það er fólk sem bíður eftir þessari þjónustu.