148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um mikilvæg mál sem lúta að þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, oft nefnd NPA, og samhliða frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 2007, eins og fram hefur komið, og var fullgiltur í september 2016. Með áðurnefndu frumvarpi um breytingar á félagsþjónustu sveitarfélaga er m.a. stefnt að því að innleiða ákveðin ákvæði samningsins í íslenska löggjöf og er það liður í fullgildingarferli Íslands.

Þessar breytingar á lögum um félagsþjónustu lúta m.a. að skipulagi, stjórnun og hlutverki félagsmálanefnda, samráði við notendur þjónustunnar, sem er merkilegt, og síðan samningum við einkaaðila, starfsleyfisveitingum og fleira. Síðan er ákvæði um breytingar á hlutverki hinnar svokölluðu félagslegu heimaþjónustu, sem menn vilja fremur fara að nefna sem stuðningsþjónustu. Það er heimaþjónusta sem við þekkjum í þeirri mynd. Menn vilja fara að horfa á þessi mál í breiðara samhengi en aðeins að veita fólki aðstoð við heimilishald, þrif og hugsanlega matargerð, að það taki meira mið af aðstoð við að athafna sig í daglegum verkefnum bæði utan heimilisins og innan. Það er merkilegt. Það er liður í því að gera fötluðu fólki og eldra fólki kleift að búa lengur heima, eins og við klifum á sýknt og heilagt og höfum gert í tvo eða þrjá áratugi, að búa fólki möguleika til þess að búa sem lengst heima.

Síðast en ekki síst er í frumvarpinu hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra, að sveitarfélögin standi við reglugerðir og að ákvarðanir sveitarfélaga styðjist við lagaákvæði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að samningur var undirritaður 2007. Mál hafa hnikast áfram, hægt en þó markvisst, og liggja nú fyrir þessi tvö frumvörp, vonandi í nokkurn veginn endanlegri mynd. Oft er haft á orði að þessi frumvörp séu niðurstaða mikilla málamiðlana og að menn hafi náð landi í því efni.

Haft hefur verið víðtækt samráð, bæði við fagfólk og auðvitað þjónustuþegana, hagsmunahópa, og búin út sú niðurstaða sem nú liggur fyrir. Við sjáum vonandi fyrir endann á málinu.

Nokkur veigamikil atriði bíða þó enn umræðu í velferðarnefnd. Ég held að ekki megi gera lítið úr því. Ég verð að segja að fyrri jafnréttis- og félagsmálaráðherra Þorsteinn Víglundsson sýndi þessu máli gríðarlega mikinn áhuga. Hann barðist raunar til síðasta blóðdropa í starfi sínu fyrir því að koma því áfram. Ég upplifði það þannig að ekki hefði verið pólitískur ágreiningur um málið. En það var mat nefndarinnar að málið væri bara ekki fullklárað. Það vantaði að mati nefndarinnar töluvert mikið inn í að ábyrgt væri að afgreiða það úr nefndinni. Það voru ákvæði eins og t.d. flutningur samninga á milli sveitarfélaga, að reglugerð væri klár varðandi það.

Síðan er mikilvægt atriði sem við þurfum að ræða til fullnustu, þ.e. réttur barna til að njóta NPA. Að mínu áliti var því ekki nægilega skýrt svarað. Síðan er hið mikla hagsmunaatriði varðandi börn með miklar þroska- og geðraskanir sem er áhyggjuefni sveitarfélaganna.

Það eru auðvitað blendnar tilfinningar að standa hér í dag þegar þessi frumvörp eru lögð fram samhliða. Það eru nokkur vonbrigði með væntingar þjónustuþeganna í huga að málið skuli ekki þegar vera komið í höfn, en þó er auðvitað ánægjulegt að við sjáum nú fyrir endann á því. Það er ekki pólitískur ágreiningur um málið, eins og margoft hefur komið fram.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem komið hafa fram hjá hæstv. ráðherra í dag er unnið að reglugerðarsmíð af keppi og vonandi liggja þær fyrir fljótlega. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, ekki síst með tilliti til sveitarfélaganna.

Við þekkjum öll hina pólitísku dramatík í landinu. Hún hefur líka tafið verkefnið. En við trúum því að við nálgumst niðurstöðuna með hraði. Fjöldi einstaklinga bíður þess að lögin verði að veruleika og við þingmenn verðum að gyrða okkur í brók. Og þrátt fyrir að það séu harla erfiðir tímar fram undan, miklar matarhátíðir, vona ég að það takist nú vel.

Herra forseti. Það er von þess sem hér stendur að frumvarpinu verði vísað þegar til nefndar og að langþráður draumur fatlaðs fólks um sjálfsögð mannréttindi verði að veruleika á nýju ári sem skammt er undan, á árinu 2018.