148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum þrjú mál sem snerta réttindi fatlaðs fólks. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. félags- og jafnréttisráðherra fyrir þessa leið, sem og þinginu fyrir að samþykkja hana, að við séum að ræða þessi þrjú mál saman. Ég held að það greiði fyrir umræðunni því að málin eru öll samtengd. Ég held að við munum þá þokast lengra og hraðar í umræðunni í dag.

Eðlilega er áherslan í umræðunni mjög mikið á NPA eða notendastýrða persónulega aðstoð. Það er hins vegar rosalega mikilvægt að við missum ekki sjónar af því að stóru frumvörpin tvö sem liggja undir snúa, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra sem og annarra hv. þingmanna sem hafa tekið til máls, að miklu fleiri atriðum sem lúta að þjónustu og réttindum fatlaðs fólks í miklu víðara samhengi og koma m.a. inn á innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þó svo að umræðan hér snúist mjög mikið um NPA er þetta miklu stærra mál sem er undir. Ég held að það sé ein af þeim ástæðum sem liggja að baki því hversu seint hefur tekist að klára þau mál. Það er vegna þess að hv. velferðarnefnd hefur ekki aðeins verið að fjalla um það sem snýr að NPA heldur svo miklu fleira á sama tíma. Það verður stundum eins og hálfgert olnbogabarn í umræðunni en þannig má það alls ekki vera því að eins mikilvæg þjónusta og NPA er fyrir þá sem hana fá þá held ég að við eigum ansi langt í land með það að allt fatlað fólk verði undir NPA, þótt í draumaríki framtíðarinnar verði það kannski þannig. Auðvitað þurfum við að hugsa um hag alls fatlaðs fólks þegar við ræðum þetta.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði í andsvari áðan eins og stjórnarandstaðan á síðasta þingi, og þá kannski helst við í Vinstri grænum, hefði stoppað málin og komið í veg fyrir að þau væru kláruð. Það er algjörlega fráleitt að halda slíku fram. Málið hefur sem betur fer hingað til verið í þó nokkuð góðri þverpólitískri sátt þótt ólík sjónarmið hafi verið uppi, sem er alveg eðlilegt þegar margir ólíkir flokkar koma að málum. En við höfum notið þeirrar gæfu að vera samstiga í því að vilja vinna málin vel og að vilja vinna þau saman.

Líkt og kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar áðan var það einfaldlega svo að velferðarnefnd náði ekki að botna vinnuna. Það er leiðinlegt. Það hefði verið langbest ef við hefðum getað klárað vinnuna. Það var bara ekki þannig. Stundum þróast hlutirnir þannig að maður fær ekki alveg það sem maður vill.

Stóra málið sem er eftir er að botna umræðuna um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan að við verðum að taka ákvörðun þar og skera á hnútinn, en það verður að klára umræðuna til þess að komast á þann stað.

Eitt af því sem hefur mikið verið rætt er að það eru ýmis atriði í þessum frumvörpum sem á að leysa með reglugerð. Það er kannski ekkert óeðlilegt, en það veldur því alltaf að það eru spurningar um hvernig þetta muni þá verða. Það gerir málin flóknari. Þess vegna held ég að það sé alveg einstaklega góð tillaga hjá hæstv. ráðherra að bjóða það fram að sýna hv. velferðarnefnd inn í þessa vinnu við reglugerðirnar og handbókina. Ég er viss um að það mun verða til þess að þoka málinu áfram því að það mun svara svo mörgum spurningum um það hvernig þetta verður endanlega botnað, þótt ekki sé hægt að klára reglugerðarvinnuna fyrr en frumvarpið hefur verið klárað á þingi. Ég held að þetta vinnulag muni flýta fyrir og verða málinu mjög hjálplegt.

Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður og nýr formaður hv. velferðarnefndar, Halldóra Mogensen, leggur áherslu á að vinna málin vel en vinna þau hratt.

Ég held að rosalega mikilvægt sé að velferðarnefnd geri nákvæmlega það. Við vorum hér áðan að ræða útlendingalög, sem hafa margoft komi hingað og við þurft að gera á þeim breytingar. Það hefur verið gagnrýnt. Ég held hins vegar að það sé alveg rétt að þegar verið er að samþykkja nýja og stóra lagabálka verði aldrei óumflýjanlegt að gera það, en þingið hlýtur að vilja búa svo um hnútana að ef það er vitað að eitthvað stendur út af þá sé það klárað en ekki bara sagt: Já, svo lögum við þetta seinna þegar við verðum farin að reka okkur á vankantana. Þegar liggur alveg fyrir að það er eitthvað sem er ekki alveg klárt hljótum við að klára það fyrst.

Að því sögðu vona ég að þetta muni ekki taka óskaplega langan tíma og held að það væri best ef hægt væri að klára málin þannig að þessi lög gætu tekið gildi um mitt ár 2018. Það væri best, en ég veit ekki hvort það er hægt. En ég vildi koma þeim sjónarmiðum á framfæri. Það stendur svo sannarlega ekki á okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði að klára þetta mál og hefur aldrei gert það.

Ég vona og treysti því að bráðabirgðaákvæðið verði samþykkt fyrir áramót til þess að þeir sem eru nú þegar komnir með samninga haldi áfram með þá sem og að samningunum verði fjölgað, eins og plön hafa gert ráð fyrir. Ég vil um leið óska hv. velferðarnefnd velfarnaðar í vinnu sinni við að klára málin. Ég held að hún hafi í rauninni allt í höndunum til þess að sú vinna geti gengið hratt og örugglega fyrir sig.