148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið hér um þessi stóru og mikilvægu mál og þann samhljóm sem hefur verið meðal þeirra sem hafa tekið til máls um mikilvægi þess að vinna þessi mál og klára þau. Þessi samhljómur er alveg í takt við það sem hefur verið í ræðustól undanfarin ár og samt erum við hér.

Það sem mig langar til að árétta og ná fram, og vil beina máli mínu til hv. þingmanns, er hvort við séum ekki komin á þann tímapunkt núna að klára málið og taka kannski einhvern séns á því að þetta verði ekki algjörlega fullkomið og það verði þá lagað eftir á. Ég heyri það sem hv. þingmaður talar um og vísar til breytinga á útlendingalögunum, að það hafi þurft að koma til baka o.s.frv. En þær breytingar sem voru gerðar gögnuðust þó þeim sem þeim voru ætlað. Á einhverjum tímapunkti er kannski kominn tími til að segja: Klárum þetta.

Ég hjó eftir því líka sem hv. þingmaður sagði að eitt af því sem hefði tafið málið er að það heyrði þarna fleiri undir en NPA og velferðarnefndin hefði þurft að horfa á stærri pakka. Ein leiðin er þá kannski sú að brjóta þessi mál upp og klára þetta mál.

Ég velti fyrir mér og spyr: Frekar en að sjá fram á að sú sátt og samlyndi sem þetta mál er unnið í haldi bara áfram að felast í því að menn vandi sig rosalega mikið og ræði og taki sig saman um að ljúka málinu án þess að skilja eftir nokkurn vafa um að einhvers staðar hafi orðið mistök, er ekki betra að við skerum þetta niður ef það er það sem þarf til að klára málið og ekki bara vona að við náum að klára fyrir mitt ár, heldur ganga í málið og klára það?