148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, hefði þó gjarnan viljað, það kemur kannski í seinna svari, fá hennar skoðun á því hvort það væri kannski ástæða til að brjóta málið upp ef staðreyndin er sú að þetta er það flókið og stórt að velferðarnefnd nái ekki utan um það eins og ég skildi hv. þingmann áðan. Hún tók fram að nefndin væri ekki bara að fjalla um það sem sneri að NPA heldur væri fleira undir, enda stór og mikill málaflokkur, og það væri að tefja málið. Þá er stundum betra að borða fílinn í smærri bitum. Það gagnast þeim sem eiga hagsmuna að gæta.

Svo langar mig aðeins að spyrja af því að nú hefur hv. þingmaður tvisvar talað um að það séu uppi ólík sjónarmið í málinu sem þurfi að sætta en samt sé um málið þverpólitísk sátt: Eru þá þessi ólíku sjónarmið einhvers annars eðlis? Ég er í alvöru að reyna að ná utan um það hvernig við getum staðið hérna ár eftir ár og rætt um þverpólitíska sátt í máli sem næst ekki að klára.