148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

velferðarmál.

[13:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir fyrirspurnina. Hann tekur fyrir brýn mál sem snúast um kjör þeirra sem verst eru settir í samfélaginu, en talar líka um það hvernig við getum tekið höndum saman um að auka almennan jöfnuð. Ég vil fyrst benda hv. þingmanni á að það fjárlagafrumvarp sem hér var lagt fram í síðustu viku hefur tekið róttækum breytingum á mjög skömmum tíma frá því fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í haust. Ég myndi segja það við hv. þingmann að allar þær breytingar séu til batnaðar. Allar þær breytingar eru til þess fallnar að auka hér jöfnuð í samfélaginu, sem ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um.

Ég vil nefna til að mynda stóraukin framlög til menntakerfisins í landinu. Hv. þingmaður vitnaði í Piketty í umræðum um stefnuræðu. Ég veit að hann er vafalaust jafn vel lesinn í Piketty og ég. Hann veit þar af leiðandi að þau tvö úrræði sem Thomas Piketty, franski hagfræðingurinn, nefnir til þess að styrkja og auka jöfnuð eru annars vegar skattkerfið og hins vegar menntakerfið.

Hér verið að stórefla menntakerfið, ekki bara að auka hæfni Íslands til að takast á við nýjar áskoranir og gera okkur samkeppnishæf í heiminum — það mun auðvitað fyrst og fremst byggja á hugviti og þekkingu í framtíðinni — en líka til þess að efla jöfnuð.

Sú skattkerfisbreyting sem gerð er í fjárlagafrumvarpinu og hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um, snýst um að hækka hér fjármagnstekjuskatt. Það snýst líka um að auka jöfnuð, því að eins og hv. þingmaður þekkir, vel lesinn í Piketty eins og sú sem hér stendur, eru sóknarfæri þar til að tryggja jöfnuð, þ.e. að sækja auknar skatttekjur í þá átt.

Ég vil svo segja það af því að hv. þingmaður spyr um aldraða og öryrkja, að við höfum átt samtal við forystumenn öryrkja. Til stendur að fara í virkt samtal við þessa hópa og vinna hratt þannig að vonandi strax í þeirri fjármálaáætlun sem hér verður lögð fram í vor munum við hafa hugmynd um hvert við stefnum. Ég tel að hv. þingmaður og ég séum sammála um að gera þurfi kerfisbreytingar á örorkukerfinu (Forseti hringir.) þannig að við getum í senn hvatt til samfélagslegrar þátttöku og um leið tryggt þessum hópum mannsæmandi kjör (Forseti hringir.) sem við, hv. þingmenn, erum algjörlega sammála um að þurfi að gera.