148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bankamál.

[13:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er í fyrsta lagi spurt um hvað standi til varðandi arðgreiðslur úr fjármálakerfinu og möguleikann til að nýta fjármuni sem nú eru bundnir í fjármálakerfinu á Íslandi til að halda áfram að byggja upp landið okkar. Þar hef ég haft mjög skýra stefnu og talað fyrir henni í langan tíma. Ég tel að það sé tækifæri til að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum, í fyrsta lagi með því að selja hlutafé á komandi árum, og er hvítbókin nauðsynlegur aðdragandi stórra ákvarðana um þau efni. Í öðru lagi með því að bankarnir haldi áfram að greiða út arð eins og þeir hafa gert á undanförnum árum. Komið hafa yfir 100 milljarðar í arð í ríkissjóð á undanförnum árum sem nýttir hafa verið einmitt í þessum tilgangi. Og í þriðja lagi með sérstökum arðgreiðslum sem gætu komið að gagni.

Varðandi forkaupsréttinn sem hv. þingmaður vísar hér til var það mál kynnt og rætt á fyrri stigum í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það kann að vera, og ég sé það á þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður hefur lagt fram í dag ásamt öðrum, að menn geti haft ólíka skoðun á því hvort sá kaupréttur hafi verið til staðar. En það varð niðurstaða stjórnkerfisins, fjármálaráðuneytisins á þeim tíma, hún var kynnt og henni var ekki mótmælt af meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að skilyrði þess að ríkið beitti forkaupsrétti voru ekki til staðar. Það var á grundvelli stöðugleikaskilyrða sem gerð voru í tíð ríkisstjórnar sem við hv. þingmaður sátum saman í. Um það er eflaust einhver ágreiningur og mér finnst ekki nema sjálfsagt að menn taki það þá til skoðunar. Ég fæ ekki annað séð en að hingað til hafi menn verið að vinna að þessu máli á réttum forsendum.

Varðandi það hvort ríkið eignast forkaupsrétt við skráningu bankans á markað, ef til þess kemur, er sömuleiðis búið að skrifa út reglurnar um það í þeim stöðugleikaskilyrðum sem gerð voru. Í vissum tilvikum virkjast ekki forkaupsréttur og það stendur ekki til hjá þeim sem hér stendur að falla frá forkaupsrétti sé hann til staðar.