148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný stjórnarskrá, rannsókn á einkavæðingu bankanna.

[13:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra verður tíðrætt um að efla traust á stjórnmálunum að nýju eftir það áfall sem varð í eftirmála hrunsins og þann trúnaðarbrest sem þá varð á milli þings og þjóðar. Nú er það svo að ríkisstjórnir eftirhrunsáranna hafa verið misduglegar við að byggja upp þetta traust með því t.d. að hunsa vilja þjóðarinnar eða standa ekki við gefin loforð. Dæmi um þessa ótraustverðu stjórnarhætti er viðvarandi vanvilji meiri hluta þingsins til að fara að vilja þjóðarinnar og setja hér nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs. Ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra gefur í skyn að áfram eigi að slá því þjóðþrifamáli á frest þótt sú sem hér stendur beri þá von í brjósti að hæstv. forsætisráðherra muni vinna málinu brautargengi á komandi kjörtímabili. Gott og vel, meira um það síðar.

Spurning mín snýr að annars konar skuldbindingu þessa þings en er þó af sama meiði.

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur þetta fram, með leyfi forseta:

„Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að til stendur að selja hluti ríkisins í bönkunum, svo ég þýði þessa klausu yfir á mannamál, og fyrirætlana hæstv. forsætisráðherra um að efla traust almennings á stjórnmálum, hvort ríkisstjórnin muni fara að vilja þingsins frá árinu 2012 um rannsókn á einkavæðingu bankanna í heild sinni og hvort þeirri rannsókn verði aflokið áður en frekari sala á bönkunum fer fram. Mun ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra standa við gefið loforð um að rannsaka einkavæðingu bankanna í heild sinni?