148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fjármögnun kosningaauglýsinga.

[13:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tel rétt að nota þennan fyrsta fyrirspurnatíma hæstv. forsætisráðherra og spyrja um kosningarnar, framkvæmd þeirra, sem tengist að mínu mati lýðræði, uppbyggingu lýðræðis og ekki síst þjóðaröryggi. Við urðum þess áþreifanlega vör, og þetta er þróunin almennt í Evrópu, líka vestan hafs, að í kosningabaráttunni er settur fram áróður, oft og tíðum mjög ómálefnalegur, til að hafa áhrif á kjósendur. Það er ekkert gagnsæi heldur frekar leyndarhyggja, sem snertir fjármögnun þessa áróðurs. Við þekkjum þetta, Skatta-Kötu myndbandið sem var beinlínis sett inn í kosningabaráttuna til þess að hafa ákveðin áhrif. Og það eru ýmis fleiri dæmi hér heima um kosningaáróður sem er fjármagnaður. Hann kostar mikla fjármuni og hefur áhrif á kosningarnar, styður frekar við suma flokka en aðra eins og gengur. Við sjáum þá umræðu, hún er líka tekin vestan hafs. Hvert er Facebook að fara með miðlun upplýsinga, söfnun upplýsinga, Google, o.s.frv.?

Ég tel skipta mjög miklu máli að farið verði mjög vel yfir alla þessa þætti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún taki ekki undir með mér í þá veru, og biðja hugsanlega Ríkisendurskoðun um að rannsaka síðustu kosningar til að velta við öllum steinum og hafa gagnsæi, ekki síst varðandi fjármögnun. Við höfum gagnsæi í eignarhaldi fjölmiðla. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Við höfum einn miðil sem er hagsmunagæsluaðili fyrir sjávarútveg og landbúnað. Annar er meira fyrir „úrbanista“ o.s.frv. Þetta þurfum við að vita, ekki síst í þágu þess að kjósendur verði upplýstir um hvað býr að baki þess áróðurs sem verið er að miðla til þeirra.

Ég tel miklu máli skipta að við förum vel yfir þetta og fáum til þess bæra aðila, Ríkisendurskoðun og aðra, til að rannsaka hvernig staðið var að kosningunum, upplýsa hverjir stóðu á bak við þennan áróður með það í huga að byggja upp lýðræðið til lengri tíma. Við höldum kosningar núna í vor, sveitarstjórnarkosningar. Við erum tilbúin. (Forseti hringir.) Höfum allt uppi á borðum í þágu lýðræðis og í þágu kjósenda.