148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fjármögnun kosningaauglýsinga.

[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir áhugaverða fyrirspurn. Það er vissulega rétt, ef við lítum út í heim er það svo að ýmsir aðilar hafa verið að rannsaka til að mynda áhrif samskiptamiðla beinlínis á niðurstöður kosninga, áhrif algóritma á leitarvélum á niðurstöður kosninga þar sem verið er að kortleggja hegðun einstaklinga langt umfram það sem flestir gera sér grein fyrir í sínu daglega lífi. Ég held að þetta sé mjög góð og mikilvæg umræða sem mér finnst mikilvægt að við tökum á Alþingi.

Hvað varðar framkvæmd síðustu þingkosninga og þann nafnlausa áróður sem hv. þingmaður vísar til og var töluvert til umræðu í kringum kosningar er það svo að ég hef í hyggju að óska eftir því við framkvæmdastjóra stjórnmálaflokkanna að þeir setjist sjálfir, eða tilnefni aðila til þess, saman í nefnd til að fara yfir lögin um fjárreiður stjórnmálaflokka. Hluti af því sem þar þarf að vera undir er auðvitað hvernig eigi að fara með pólitískar auglýsingar eða pólitísk skilaboð sem eru nafnlaus og fjármögnun þeirra.

Ég er hins vegar mjög opin fyrir því að eiga samtöl við formenn flokkanna, ef það er eitthvað frekar sem alþingismenn sjá fyrir sér að sé rétt að gera í þessu, til að mynda að óska eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar á málinu. Ég veit að framkvæmdastjórar flokkanna hafa verið í samskiptum við Ríkisendurskoðun um nákvæmlega þessi mál og hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að endurskoða í lögum til þess að við náum að skapa lagaramma utan um þetta. Mín fyrirætlan var að óska eftir því við flokkana að þeir settu saman nefnd til að fara yfir lögin um fjármál stjórnmálaflokka þar sem m.a. yrði tekið á því. Ef alþingismenn vilja koma með frekari hugmynd tel ég eðlilegt að við ræðum þær á vettvangi flokkana því að þetta er mál sem varðar okkur öll og það er hagsmunamál okkar allra að stjórnmálin séu rekin með sem gagnsæjustum hætti. Ég fagna því ef það eru frekari tillögur um aðgerðir í þessu.