148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fjármögnun kosningaauglýsinga.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hv. þingmanni hvað varðar nauðsyn þess að við séum með gagnsæi að leiðarljósi í öllu stjórnmálastarfi hér á landi. Hv. þingmaður nefndi ýmis dæmi. Ég svo sem ætla ekki að leggja mat á það hversu raunhæf þau eru til framtíðar, en ég held hins vegar að það sé mikilvægara að vera viðbúin, eins og hv. þingmaður segir, að við kynnum okkur þá umræðu eins og hún stendur yfir á alþjóðavettvangi. Það kann að vera að það séu fleiri vettvangar en bara nefnd framkvæmdastjóra flokkanna sem henta til þess. Við ættum líka að taka þessi mál til umræðu hér á þinginu. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem við eigum að ræða á vettvangi formanna flokkanna og skoða hvaða farveg við viljum sjá til þess. Ég mun óska eftir því við framkvæmdastjórana að nefnd sem fer yfir fjárhæðir stjórnmálaflokka og rammann um þau mál verði skipuð og vona að það starf muni ganga vel. En ég tel að það megi ræða þetta í breiðara samhengi hér á þingi, á einhverjum vettvangi innan þings. Ég tek undir það með hv. þingmanni.