148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:20]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þessa sérstöku umræðu og frumkvæði hv. málshefjanda, umræðu um starfshættina. Hún er þörf og horfir til umbóta í verkefnum okkar á Alþingi.

Margt kemur nýgræðingi á óvart í skipulagi og störfum þingsins sem vanur er hefðbundinni vinnu þar sem skilgreindir mælikvarðar gilda um afköst, skipulag og að undan manni gangi. Mér hefur oft verið hugsað til hugmyndafræðinnar um straumlínustjórnun, ég hef svo sem gert það áður, þegar hægt mjakast hér í þessu virðulega húsi. Ég held við getum bætt verklag okkar til muna, sem dæmi að dagskrá þingsins sé lögð fram hér eins tímanlega og hægt er, með öllum hugsanlegum fyrirvörum. Þannig gefst betri tími til undirbúnings og vandaðri og oft styttri umræðu og hægt að ljúka málum, eins og málshefjandi drap á.

Annað er vinnutíminn með kvöld- og helgarvinnu, stundum fram á nótt. Ég þykist vita að úr því hafi dregið í seinni tíð, en vissulega sýnir þingið vinnulöggjöfinni takmarkaða virðingu og ákvæðum um hvíldartíma. Það er ekki gott fordæmi.

Herra forseti. Það er mikilvægt að Alþingi temji sér eins umhverfisvæna starfshætti og mögulegt er á öllum sviðum og gangi á undan með minnkandi pappírsnotkun og rafrænni umsýslu og nýti sér tæknina eins og frekast er kostur með samlestri og samanburði á gögnum sem við erum stöðugt háðari, þau eru oft flókin. Við erum að fást við EES-gögn, ESB og EFTA og hvað það heitir og er.

Síðan er það skoðun mín að Alþingi eigi að starfa í meiri samfellu allt árið með stuttum, eðlilegum hléum en ekki að ríghaldið sé í gamlar hefðir sem miðast við fengitíma eða túnaslátt til sveita á liðinni öld. Með því væri aukin áhersla lögð á vandaða og yfirvegaðri starfshætti og vinnulag við lagagerð og dregið úr því óhóflega álagi og hættu á slysum við lagasmíð (Forseti hringir.) við þær aðstæður sem iðulega skapast undir lok þings fyrir jól og að vori.