148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég skil þessa umræðu á sama hátt og hæstv. forsætisráðherra, að hún snúist einkum um tvennt: Annars vegar hvernig ríkisstjórnin nálgist minni hlutann í þinginu og hins vegar hvaða aðstæður þinginu eru skapaðar til að styrkja stöðu sína og auka áhrif sín, væntanlega ekki síst gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ef við byrjum á því fyrra, hvernig ríkisstjórnin nálgast minni hlutann, hvað hefur breyst þar? Við sáum strax í upphafi þings að meiri hlutinn tilkynnti stjórnarandstöðunni hvar hún fengi að hafa formennsku í nefndum, annað væri ekki til umræðu. Ég minni hæstv. forsætisráðherra á hvernig hún og flokkur hennar brugðust við þegar þeim var boðið upp á nákvæmlega það sama fyrir ári síðan, töldu það ekki til marks um ný vinnubrögð á þinginu.

Svo eru það fjárveitingarnar og hvað lesa má úr þeim. Þá horfum við upp á að verið er að auka framlög til framkvæmdarvaldsins langt umfram það sem sett er í að styrkja þingið. Niðurstaðan er sú, ef við skoðum hvað menn gera en ekki hvað þeir segja, að verið er að styrkja framkvæmdarvaldið, þá hugsanlega á kostnað þingsins.

Í fjárlagafrumvarpinu sem ríkisstjórnin hefur lagt fram segir m.a., með leyfi forseta, um 105 milljóna króna nýjan lið sem á að renna til forsætisráðuneytisins:

„Gert er ráð fyrir að til staðar verði í forsætisráðuneytinu formlegur vettvangur samhæfingar áherslna stjórnarsáttmála innan Stjórnarráðsins sem hafi stöðuga langtímayfirsýn yfir stöðu allra verkefna sem tengjast meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar …“

Og, þetta er lykilatriði:

„… og umboð til eftirfylgni með þeim.“

Svo bætast þarna við 85 milljónir til að sinna verkefnum eins og peningastefnunni, 40 milljónir til að taka frá þinginu skjalavinnslu, samanlagt 230 milljónir og 500 þúsund krónur til að styrkja stöðu framkvæmdarvaldsins.