148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða og er rétt að þakka málshefjanda fyrir hana. Það vill þannig til að fyrir skömmu flutti ég fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík um verkefnastjórnun og Alþingi, þannig að ég hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér. Það var dálítið merkilegt að þegar ég fór að hugsa um hvers lags staður Alþingi væri og hvort lögmál verkefnastjórnunar gætu átt við fór ég að velta fyrir mér hvort hægt væri að stýra pólitík. Er hægt að stýra löggjafarstarfinu? Gilda hefðbundin lögmál um þennan vettvang?

Við erum 63 hérna á þinginu. Við höfum öll mismunandi skoðanir. Við höfum skipað okkur í átta fylkingar þar sem við erum nokkurn veginn sammála um aðalatriði og síðan er fyrirkomulag þannig að það er stjórn og stjórnarandstaða eða minni hluti þar sem verið er að blanda þessu öllu saman. Þá er spurningin þessi: Geta menn haft sömu markmið, sömu sýn og er hægt að stýra þessu?

Þegar maður ræðst í verkefni er mjög mikilvægt að vita hvað maður er að fara að gera og til hvers maður er að gera það, hvernig maður ætlar að gera það o.s.frv. Við höfum leiðbeiningar, við höfum stjórnarsáttmála. Er það gott tól? Ég held að það sé ekki mjög gott tól. Ég held að það séu 180 verkefni sem okkur eru sett fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hvar er verkefnaskrá þingsins sjálfs? Hvar er verkefnaskrá þingnefndanna? Hún er ekki til.

Ég held að það sé alveg hægt að gera mjög margt hér til þess að laga, horfa m.a. á kenningar um stjórnun í verkefnastjórnun. Ég er ekki að boða mikla harðlínu í því. En það er hægt að læra ýmislegt, við getum gert miklu betur því að þrátt fyrir allt er mjög margt sem við erum að fást við sem við erum meira og minna sammála um og getum vandað okkur betur.