148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég fagna þeim tónum sem fram koma í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar varðandi ný vinnubrögð, þótt, eins og hv. þingmenn hafa komið hér inn á áður, fyrstu skrefin hafi kannski ekki gefið ástæðu til bjartsýni. Síðan verð ég nú að segja eftir orð hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í dag varðandi ýmis málefni að mér finnst þau vita á gott varðandi stjórnarskrána, varðandi ýmsa aðra mikilvæga vinnu m.a. til þess að upplýsa almenning um það hverjir standa á bak við fjármögnun ýmiss áróðurs. Og þar ætlum við að fara að vinna þvert á flokka. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn.

Alþingi er góður vinnustaður. Hann er eftirsóknarverður. Annars hefði ég og ýmsir fleiri ekki sóst eftir því að vera hér aftur og aftur. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í stjórn og stjórnarandstöðu, bæði í stórum og litlum flokki. Það er ákveðin reynsla sem maður reynir að taka með sér áfram. Það skiptir mjög miklu máli að hafa öfluga forseta. Ég veita að hér verður engin undantekning á. Mín reynsla er sú að við höfum haft öfluga forseta sem staðið hafa meira með þingheimi en framkvæmdarvaldinu.

Það er hárrétt sem fram kom áðan í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það skiptir líka máli hvernig framkvæmdarvaldið leggur fram mál sín. Við vitum það af fenginni reynslu að ef ríkisstjórnin undirbýr mál sín ekki vel þá geta þau jafnvel fallið. Þannig að menn verða að fara varlega.

Ég vil benda á að þetta er líka ákveðin áskorun fyrir fjölmiðla að taka þátt í því að búa til ný vinnubrögð og nýja ásýnd, nýja nálgun á þingið. Ég fékk hringingu í síðustu viku frá einum ágætum fjölmiðlamanni út af ákveðnu máli. Honum fannst óskaplega leiðinlegt hvað ég og Viðreisn ætluðum að einbeita okkur að því að vera málefnaleg — við sjáum til hvernig það síðan gengur allt saman — „vegna þess að þetta verður svo leiðinlegt, ég fæ engar fyrirsagnir, Þorgerður“. Ég held að það sé ákveðin áskorun fyrir fjölmiðla að taka þátt í þessu með okkur.

Strax í vor reynir á (Forseti hringir.) meiri hlutann hér á þingi og það verður forvitnilegt að sjá hversu mörg mál af hálfu stjórnarandstöðunnar fá framgang (Forseti hringir.) og umfjöllun í þinginu. Þegar við förum að semja um þinglok reynir á hvort ný vinnubrögð hafi verið tekin upp.