148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Takk fyrir að taka þátt í þessum umræðum. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði að þessi umræða kæmi fram á góðum tíma en að við hefðum ekkert að segja um aðstæður. Ég tel það einmitt vera rangt. Við gætum gert þetta vel í staðinn fyrir að gera þetta á hundavaði. Við gætum gert þetta vel í stað þess að flýta okkur við að samþykkja fjárlög og vita ekki hvað við erum að samþykkja. Það hefur verið gert áður, við getum gert það aftur.

Hér hefur verið komið inn á mannlega þáttinn. Mig langar að endurtaka það sem ég sagði um að hér væri mönnum gerðar upp skoðanir. Það komu meira að segja fram tvö dæmi í þessari umræðu um það, þó alls ekki alvarleg en bara smá dæmi sem ég ætla að vitna í. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson minntist á nefndarvinnuna í síðustu ríkisstjórnarviðræðum, en munurinn þar á var að þáverandi ríkisstjórn ætlaði að hlutast til um hvað minni hlutinn gerði við nefndarsætin sem hann úthlutaði. Það er munur á núna og þá.

Einnig sagði hæstv. forseti Steingrímur J. Sigfússon að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefði sagt að hann vildi að það væri þingbundin ríkisstjórn. En það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson átti við var að sjálfsögðu hefðbundin meirihlutaríkisstjórn, þingbundin. Sem er ekki æskilegt. Ef við værum almennt séð með minnihlutaríkisstjórn væru vinnuaðstæður á þinginu allt aðrar. En það þyrfti að leita málamiðlana. Við gætum kannski aðeins prófað það. Meira að segja núverandi stjórnarskrá virkaði nokkuð vel ef það væri að jafnaði minnihlutaríkisstjórn. Þá væri margt í henni miklu rökréttara, eins og að forsætisráðherra gæti slitið þingi og því um líkt.

Þetta er of stutt umræða, því miður, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði. (Forseti hringir.) En það komu rosalega margir punktar hér fram sem ég tel að við getum haldið áfram umræðu um á stærri vettvangi.