148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Með #metoo eða #ískuggavaldsins var dregin lína í sandinn þar sem konur sögðu að líkamar þeirra og sjálfsvirðing skyldi ekki vera lengur viðfang, leikfang karla með völd, hvort sem þau byggja á stigveldi þjóðfélagsins eða líkamlegum yfirburðum. Hingað og ekki lengra.

Sögurnar sem stigu úr Í skugga valdsins eru nafnlausar og það hefur sætt talsverðri gagnrýni úr sumum áttum, en nafnleysi má þó rekja til ýmissa þátta. Í fyrsta lagi er það að stíga fram og nafngreina alveg gríðarlega erfitt og þá er sú saga orðin persónutengd og fer að snúast um það í stað þess almenna vanda sem er verið að lýsa. Þar að auki dregur nafngreining úr þeim skilaboðum sem verið er að senda um að hér séum við að lýsa hversdagsleika allra kvenna á Íslandi.

Í þriðja og kannski mikilvægasta lagi hefur nafngreining mögulega í för með sér kæru og hefur því umtalsverða persónulega áhættu í för með sér fyrir þann sem segir frá, þ.e. að verða fyrir meiðyrðaákæru.

Í þessu ljósi er vert að varpa fram hugmynd sem ég hef heyrt oft frá brotaþolum kynferðisbrota, um að sett verði á fót sannleiksnefnd þar sem fólki er óhætt að koma fram og segja frá því sem á daga þess hefur drifið í þessum efnum til að ná almennilega utan um umfang vandans og til að allir geti tjáð huga sinn frjálst og án ótta við afleiðingar.

Ég legg þetta til og spyr hæstv. ráðherra hvort honum hugnist þessi hugmynd.

Á þeim 15 sekúndum sem eftir eru myndi ég vilja bæta við einni spurningu sem er sú hvort ráðherra hafi í huga einhvers konar aðgerðir sem vinna að því að byggja upp traust brotaþola gagnvart réttarvörslukerfinu. Það hefur komið skýrt fram í þessum umræðum að upplifun þeirra hingað til hefur verið að þetta kerfi bregðist þeim (Forseti hringir.) trekk í trekk og sýni þeim ekki tilhlýðilega virðingu. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra koma til móts við þennan skort á trausti (Forseti hringir.) til réttarvörslukerfisins?