148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Síðustu árin hefur hver femíníska bylgjan á fætur annarri gengið yfir okkur. Ný kynslóð hefur tekið upp þráðinn sem liggur í gegnum Rauðsokkahreyfinguna og Kvennalistann og ofið úr honum nýjan vef, vef byltinga sem spretta fram á samfélagsmiðlum og hafa breytt samfélaginu.

Það vill samt líða óþægilega langt á milli samfélagsmiðlabyltinga og þess að við stjórnmálamennirnir rönkum við okkur. Sjáum t.d. Free the Nipple sem vakti athygli á stafrænu kynferðisofbeldi vorið 2015. Nú undir lok árs 2017 er enn ekki búið að koma ákvæðum gegn því í hegningalög, nærri þremur árum síðar.

Þó er rétt að nefna að núverandi ríkisstjórn er með slíkar breytingar á stefnuskrá sinni. Það var sú síðasta raunar líka, þótt ekki hafi hún náð að skrifa þann kafla í sögubækurnar. Síðasta ríkisstjórn náði að vísu að skrifa kafla í kvenfrelsissöguna, ekki síður merkilegan. Ein af þessum bylgjum sem hafa gengið yfir samfélagið að undanförnu náði nefnilega að sprengja síðustu ríkisstjórn. Þetta voru mikil kaflaskil í femínískri baráttusögu, bylgjurnar eru orðnar svo sterkar að ekki nægir að halla sér að hefðbundnum mælikvörðum um hagvöxt, efnahagsstjórn og annað sem fólk vill gjarnan að umræða um stjórnmál hverfist um.  

En að #metoo.

Reynslusögur þolenda kynferðisofbeldis hafa fyllt samfélagsmiðla og vakið okkur til umhugsunar enn á ný. Nú heyrir það upp á okkur að breyta samfélaginu til hins betra. Það gerum við m.a. á þingi með því að setja hlutina í samhengi, hvort sem það heitir kynferðisofbeldi, áreitni, kynskiptur vinnumarkaður, launamunur kynjanna, verkaskipting á heimilunum, kynjahlutfall á þingi, hegðun í þingsal eða að aðeins sé ein þingkona í níu manna fjárlaganefnd. Þetta eru allt birtingarmyndir feðraveldisins sem við þurfum að berjast gegn.

Forseti. Við skulum fagna því að #metoo hafi kveikt umræðuna og gert okkur öll að femínistum. Nú skulum við öll halda áfram að vera femínistar og skila af okkur raunverulega bættu samfélagi.

Stundin er runnin upp.