148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:45]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Með þínu leyfi ætla ég að lesa upp eina af frásögnunum 616:

„Fyrir um hundrað árum óttuðust sumir karlmenn það að konur fengju kosningarétt. Hver ætti að sjá um börnin og heimilið? Og hvað kæmi næst, kannski framboð kvenna? Þegar Kvennalistinn var stofnaður 1983 varð óttinn sá að þær kæmu konum inn á Alþingi og jafnvel málum sínum á dagskrá. Þegar undirskriftalisti kvenna úr stjórnmálastarfi verður tilbúinn vona ég að næsti ótti þeirra verði sá að konur hætti að taka við góðum leiðbeiningum þeirra, athugasemdum, aðdróttunum, þukli og káfi.“

Svona hljómar ein af þessum 616 sögum.

Ég óskaði eftir þessari sérstöku umræðu því að mér fannst og finnst mikilvægt að þingheimur fái tækifæri til að ræða málefni sem á óvenjusterkt erindi í umræðu á Alþingi Íslendinga. Ég óskaði eftir þessari umræðu vegna þess að kynbundið ofbeldi og kynferðisleg áreitni er nokkuð sem við eigum ekki að sætta okkur lengur við. Ég þakka þess vegna ráðherra og þeim þingmönnum sem tóku til máls fyrir þátttökuna í umræðunum í dag sérstaklega fyrir. Það var mikilvægt að þetta kæmi fram.

Hvert og eitt okkar þarf að hugsa hvað við getum gert til að breyta viðhorfum samfélagsins þannig að kynbundið ofbeldi og kynbundin áreitni verði ekki lengur liðin. Eitt af því fyrsta og sterkasta sem við getum öll gert er að standa ekki hjá þegar við verðum vitni að ofbeldi eða áreitni, bregðast við og vekja athygli á, fyrir utan auðvitað hið sjálfsagða, þ.e. að beita ekki ofbeldi eða áreita.

Að lokum vil ég nýta síðustu sekúndurnar í að þakka þeim sem hafa staðið að baki #metoo-byltingunni á Íslandi og öllum þeim hugrökku konum sem brutust undan skugga valdsins og sögðu sögu sína. Við eigum ykkur öllum (Forseti hringir.) mikið að þakka.