148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bygging 5.000 leiguíbúða.

43. mál
[16:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um byggingu 5.000 leiguíbúða. Ég held að það vefjist ekki fyrir neinum hvers konar bráðavanda við glímum við á húsnæðismarkaði. Hann er, eins og réttilega er bent á í þessari þingsályktunartillögu, fyrst og fremst gríðarlegur framboðsvandi á markaði, ekki aðeins leiguíbúða heldur almennur framboðsvandi hvers kyns fasteigna inn á markaðinn. Þar er sérstaklega sláandi skortur á litlum, hagkvæmum íbúðum, hvort sem er til leigu eða kaups. Það er mjög slæmt að sjá að þrátt fyrir alla umræðuna sem hefur verið gegnumgangandi, ég myndi segja a.m.k. undanfarin átta ár, um mikilvægi þess að fjölga litlum, hagkvæmum íbúðum, í ljósi erfiðs efnahagsástands o.s.frv., hefur afskaplega lítið gerst í þeim efnum. Sveitarfélög verða að horfa til ábyrgðar sinnar þar því að það er auðvitað í skipulagsvaldi sveitarfélaganna þar sem möguleikinn til þess að tryggja rétt framboð á íbúðum liggur fyrst og fremst, að skilyrða ákveðna byggingarreiti undir byggingu lítilla og meðalstórra íbúða. Við vitum alveg að efnahagslegi hvatinn er til að byggja eins stórar og dýrar íbúðir og kostur er, hámark af nýtingu byggingarreita, að hámarka arðsemi byggingarframkvæmdarinnar o.s.frv. Þarna er ákveðið form markaðsbrests og það er skylda sveitarfélaganna í fyrsta lagi tryggja nægt framboð lóða undir íbúðir en ekki síður að tryggja að þær lóðir fari undir þær íbúðir sem þörf er á. Þar þarf að bæta úr.

Ég get alveg tekið undir með flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu að hér mætti jafnvel gera enn betur en áform eru uppi um í uppbyggingu leiguíbúða. Það verður þó að setja það í samhengi við þann fjárhagsramma sem stjórnendum er settur á hverjum tíma. Það þarf að vera hægt að fjármagna tillögu sem þessa.

Það sem ég myndi vilja benda á sem gæti komið til móts við þessi sjónarmið, annað en einungis stofnstyrkir hins opinbera, er að framlengja undanþágu til lánveitinga Íbúðalánasjóðs til byggingar á félagslegu húsnæði. Það er fullkomlega eðlilegt í samræmi við hlutverk og breytt hlutverk Íbúðalánasjóðs, ætti ekki að skarast við aðfinnslur ESA varðandi mögulega samkeppni Íbúðalánasjóðs inn á fjármögnunarmarkað og gæti leyst ákveðinn hluta þessa vanda, t.d. varðandi byggingu stúdentaíbúða en Félagsstofnun stúdenta hefur frekar sóst eftir slíkri fjármögnun en almennu íbúðunum. Ég held að það væri líka réttara að sveitarfélögin sæktu frekar í slíka fjármögnun en að nýta sér stofnstyrki ríkissjóðs til að mæta því sem ég lít á sem skyldu sveitarfélaganna til uppbyggingar á félagslegu húsnæði. (Forseti hringir.) Þar færi vel á að öll sveitarfélög öxluðu sínar byrðar sem fyrst og fremst hafa fallið hér á höfuðborgarsvæðinu, í það minnsta á Reykjavíkurborg, Hafnarfjörð og Kópavog.