148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bygging 5.000 leiguíbúða.

43. mál
[16:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það ber að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu vegna þess að ég held að sé mjög gott að við ræðum þetta mál. Ég ætla kannski ekki að segja að mér finnist þessi ágæta þingsályktunartillaga algjörlega fullkomin og mjög vel útfærð þar sem talað er um að bregðast við bráðavanda með lausn sem er svolítil skyndilausn eins og það sé mjög auðvelt að henda inn hér fjölda leiguíbúða. Staðan er þannig að 17% landsmanna eru í leiguíbúðum í dag en 80% þeirra vilja í rauninni vera í eigin íbúð. Ég myndi kannski vilja fá frekari greiningu á því hvort það sé raunverulegur skortur á leiguíbúðum.

Ég tek alla vega heils hugar undir að auðvitað er nauðsynlegt að byggja upp stöðugan og öruggan leigumarkað. Ef við hefðum stöðugan og öruggan leigumarkað þá kann vel að vera að fleiri myndu kjósa að leigja.

Eins og hér hefur komið fram er ljóst að þetta er fyrst og fremst framboðsvandi. Hverju er um að kenna í þeim efnum? Orsökin liggur örugglega að einhverju leyti hjá sveitarfélögunum en alls ekki að öllu leyti. Það hefur verið nægt framboð af lóðum, t.d. í sveitarfélögunum í kringum Reykjavíkurborg, en framkvæmdaraðilar fóru ekki af stað að byggja. Það hefur verið komið inn á það að það vantar einfaldlega iðnaðarmenn, þá er ágætt að ræða hér mikilvægi þess að við ýtum enn frekar undir það að ungt fólk velji það að fara í iðn- og tækninám því það er skortur á fólki með þá menntun. En eftir hrun fóru einfaldlega öll tæki úr landi og það var heldur ekkert fjármagn til að ráðast í uppbyggingu á þessu húsnæði.

Þessi markaður er kannski að mörgu leyti á ákveðnum yfirsnúningi í dag. Það er verið að byggja úti um allt og ljóst að töluverður fjöldi af íbúðum mun skila sér inn á markað mjög fljótlega.

Auðvitað hefur ferðamaðurinn og sú breyta breytt töluverðu hjá okkur á síðustu misserum. Það er alveg rétt sem hér kemur fram og þess vegna er kannski ágætt að hnykkja á því sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum þar sem á að taka á því og gefa sveitarfélögunum aukið rými til þess að bregðast við með því að setja ákveðnar reglur. Það kann vel að vera að full ástæða sé til þess að gera það að einhverju leyti. Þetta hefur líka ákveðin þensluhvetjandi áhrif.

Ég hef meiri áhyggjur af þessum markaði til lengri tíma litið. Ef við lítum á söguna og hvernig byggingarmarkaðurinn á Íslandi hefur verið þá hefur hann tekið alla tíð mjög stórum sveiflum. Það er auðvitað stærsta hagsmunamálið fyrir okkur öll að við getum einhvern veginn teygt á því. Við lendum allt of oft í því að fyrirtæki á þessum markaði fara í þrot með tilheyrandi kostnaði fyrir alla. Það vantar aukinn stöðugleika og festu í rekstur í þessum geira.

Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram og fari til hv. velferðarnefndar þar sem hægt er að kalla eftir umsögnum og taka málefnalega og góða umræðu um þetta mikilvæga mál sem húsnæðismarkaðurinn er.