148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bygging 5.000 leiguíbúða.

43. mál
[16:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langaði að blanda mér aðeins í þessa umræðu og horfa út frá landsbyggðarsjónarmiðum. Það vantar vissulega húsnæði víða á höfuðborgarsvæðinu en líka úti á landsbyggðinni og það hefur staðið atvinnuuppbyggingu víða fyrir þrifum þar sem hún hefur kannski ekki verið mikil undanfarin ár. Þar sem verið er að spýta í lófana og atvinnulíf hefur verið að glæðast þá skortir mjög mikið húsnæði til þess að fólk geti komið á viðkomandi svæði til þess að taka þátt í atvinnuuppbyggingunni. Þess vegna tel ég að það þurfi að gera átak í því að koma af stað, með stuðningi ríkisins, uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði úti á landi, vegna þess að viðkomandi sveitarfélög ráða ekki við það ein. Það þarf að skoða þetta í því samhengi að sveitarfélög, lífeyrissjóðir, ríkið og jafnvel atvinnulíf komi með einhverjum hætti að uppbyggingu slíks húsnæðis.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Ef það félagslega húsnæði sem var byggt á árum áður víða úti á landi hefði ekki verið til staðar hefði verið ansi erfitt að halda áfram uppbyggingu á þessum stöðum. Í mörgum minni byggðarlögum víða um land hefur ekki verið byggt húsnæði í 30, 40 ár, það segir sína sögu. Það þarf oftar en ekki ákveðið start til þess að koma hlutunum í gang til að allir hlutir virki og fólk sjái sér fært að koma í viðkomandi byggðarlög og geti verið í leiguhúsnæði og metið það hvort það hafi hug á því að kaupa á viðkomandi stað eða byggja. Það verður að vera eitthvert leiguhúsnæði fyrir fólk til þess að kanna möguleika á framtíðarbúsetu í þessum byggðarlögum. Það má ekki skilja landsbyggðina eftir í því umhverfi sem er núna þegar innspýtingu þarf inn á húsnæðismarkaðinn sem og að efla iðnmenntun, við verðum að muna eftir landsbyggðinni og líka minni bæjarfélögum þar sem þörf er á húsnæði. Þetta helst í hendur, framboð og eftirspurn.