148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

nýting forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum í Arion banka.

47. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég endurflyt hér mál sem áður var flutt af tveimur þeirra sem flytja málið nú, þeim sem hér stendur og hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, þá reyndar sem þingmenn Framsóknarflokksins, en nú er þetta lagt fram af öllum þingflokki Miðflokksins og verður að teljast eitt af brýnustu málum sem hér eru til úrlausnar í þinginu. Það var reyndar þegar orðið brýnt þegar það var lagt fram á síðasta þingi en er það ekki síður nú. Ég verð þó að byrja, herra forseti, á því að rekja aðeins aðdragandann til þess að menn átti sig á samhenginu við þá stöðu sem nú er uppi.

Eins og menn þekkja féllust slitabú hinna föllnu banka á að greiða svokölluð stöðugleikaframlög. Þetta var hluti af stöðugleikaskilyrðunum svokölluðu, skilyrðunum sem þessir aðilar gengust undir og gerðu þannig stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum. Slitabúin afhentu gríðarlegar eignir, ýmiss konar eignir, til ríkisins til þess að uppfylla þessi skilyrði. Ein þessara eigna var Íslandsbanki. Slitabú Glitnis afhenti þann banka í heilu lagi til ríkisins til þess að greiða hluta af stöðugleikaframlögunum. Í tilviki Kaupþings sem hélt utan um Arion banka í gegnum Kaupskil var farin önnur leið. Það helgaðist af því að a.m.k. hluti ráðherra Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma taldi of mikið að ríkið væri með þrjá banka í fanginu eins og það var orðað, samtímis. Því varð úr ákveðin málamiðlun, ágætislausn að mínu mati á sínum tíma, til þess að koma til móts við þessar áhyggjur Sjálfstæðismanna. Hún var sú að eignarhald ríkisins á Arion banka yrði a.m.k. fyrst um sinn óbeint. Það sem ég á við með því er að fallist var á að þeir aðilar sem héldu á bankanum fengju tækifæri til þess að selja hann, en þegar hann yrði seldur þá kæmi megnið af því sem greitt yrði fyrir hann í hlut ríkisins, gengi til ríkisins. Ríkissjóður átti sem sagt að fá megnið af því sem kæmi fyrir Arion banka. Ef menn hins vegar næðu ekki að selja bankann á eðlilegu verði til aðila sem væri treystandi til þess að reka hér banka til framtíðar fyrir mitt ár 2018 þá var gert ráð fyrir að ríkið leysti til sín bankann rétt eins og það gerði með Íslandsbanka.

Svo gerðist það óvænt, held það sé ekki orðum aukið, óvænt, í byrjun þessa árs að tilkynnt var og fylgdu þar yfirlýsingar frá þáverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þáverandi forsætisráðherra er núverandi hæstv. fjármálaráðherra, þar sem þeir fögnuðu því sérstaklega að búið væri að selja tæplega 30% hlut í Arion banka, þ.e. Kaupskil hefðu selt vogunarsjóðum 30% hlut í bankanum. Sumir þessara vogunarsjóða voru meðal stærstu eigenda Kaupskila. Við þetta var ýmislegt að athuga og ég og margir fleiri gerðum athugasemdir við þetta þá þegar.

Menn velta eflaust fyrir sér margir hverjir: Hvers vegna fóru menn þessa leið, hvers vegna selja sjálfum sér ef svo má segja bankann? Ástæðan er augljós þegar menn setja það í samhengi við það sem ég nefndi hér áðan. Þessir aðilar seldu sjálfum sér bankann á lægsta hugsanlega verði, það var markmiðið, að selja sjálfum sér bankann á eins lágu verði og kostur væri, með það að markmiði að geta þá væntanlega tekið út úr honum umfram eigið fé og selt svo bankann aftur í heilu lagi eða pörtum á hærra verði sem þyrfti þá ekki að renna til ríkisins.

Þetta var að sjálfsögðu tilraun til að fara á svig við það sem til var ætlast í stöðugleikaskilyrðunum. Í fyrsta lagi hefði þáverandi ríkisstjórn að sjálfsögðu aldrei átt að samþykkja þessi kaup. Og enn er allt á huldu um það, herra forseti, hvernig það gerðist að þessir aðilar töldu sig hafa heimild til þess að fara í þessi kaup. Að minnsta kosti brást ríkisstjórnin ekki við með öðrum hætti en þeim að senda frá sér tilkynningar, yfirlýsingar um það, að það væri fagnaðarefni og sýndi styrk íslenskra fjármálakerfisins að vogunarsjóðir væru að kaupa stóran hluta í stærsta banka landsins og væru á sama tíma að tryggja sér kauprétt að hlut sem hefði fært sameiginlegan eignarhluta þeirra yfir helming.

Þetta hefðu stjórnvöld að sjálfsögðu aldrei átt að fallast á. Þeir aðilar sem hér um ræðir eiga sumir hverjir a.m.k. skrautlegan feril að baki víða um heim í fjárfestingarstarfsemi og hafa beitt ýmsum brögðum til þess að hámarka ávinning sinn af þeirri starfsemi, m.a. verið dæmdir, alla vega einn sjóður eða einn af þessum kaupendum fyrir mjög umtalsverðar mútugreiðslur í Afríkulöndum. Það má heita augljóst að kaup slíkra aðila á stærsta banka landsins, kerfislega mikilvægum banka, séu ekki til þess fallin að vernda stöðugleika íslensks fjármálamarkaðar. En það átti einmitt að vera eitt af skilyrðunum sem stjórnvöld telja þá væntanlega að þessir aðilar hafi uppfyllt. Svo er hitt auðvitað hvort stjórnvöld telji rétt að leyfa mönnum að fara fram hjá stöðugleikaskilyrðum.

Þetta er orðin sérstaklega áleitin spurning núna þegar við sjáum muninn á Arion banka og svo stefnu stjórnvalda eða hugmyndum einhverra ráðherra a.m.k., þar með talið hæstv. fjármálaráðherra, um að taka jafnvel hundruð milljarða út úr Íslandsbanka og Landsbankanum umfram eigið fé svokallað og nýta í annað. Á meðan á að leyfa þessum fjárfestum að taka umfram eigið fé úr Arion banka. Það rennur þá ekki í innviðauppbyggingu á Íslandi eða að greiða niður ríkisskuldir, það rennur í m.a. að greiða bónusa hjá þessum sjóðum í New York og London.

Þetta er að sjálfsögðu óásættanleg niðurstaða og sætir furðu, herra forseti, sinnuleysi núverandi ríkisstjórnar og síðustu ríkisstjórnar í þessu máli. Sætir ekki bara furðu, það gengur bara ekki upp í mínum huga hvernig stjórnvöld hafa nálgast þetta mál.

En sem betur fer höfðu menn haft vit á því á sínum tíma að setja það sem kalla mætti neyðarhemil þegar frá þessu var gengið og tryggðu það að ef þessi kaup gengju í gegn undir ákveðnu lágmarksverði, eða sem nemur 80% af eigin fé bankans, þá gæti ríkið stigið þar inn í og nýtt forkaupsrétt. Nú liggur fyrir að þegar þetta var kynnt á sínum tíma var fyrirliggjandi ársuppgjör ársins 2016 fyrir bankann og samkvæmt því fór þessi sala fram undir þessu viðmiðunarverði, rétt undir 80% af verðmæti eigin fjár og þar með virkjast kaupréttur ríkisins.

Stjórnvöld hafa, bæði núverandi ríkisstjórn og sú síðasta, einhvern veginn að hummað þetta fram af sér í von um að málið hverfi bara. En raunin er öfug. Málið vindur upp á sig því nú berast fregnir af því að menn hafi áhuga á því að skrá bankann á hlutabréfamarkað og fara fram á það að ríkið afsali sér forkaupsrétti sérstaklega, stígi inn og afsali sér forkaupsrétti, til þess að sú skráning geti farið fram vandræðalaust að mati þessara aðila.

Ég reyndi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því fyrr í dag hvort það kæmi til greina af hálfu ríkisins að afsala sér forkaupsréttinum. Mér fannst hann ekki svara því skýrt, reyndar langt frá því. Ég hafði reyndar vonast til þess að hæstv. ráðherra yrði við þessa umræðu í dag svoleiðis að hann gæti gefið skýrari svör um hvað ríkisstjórnin ætlar sér ef hún þá yfir höfuð veit það í þessu máli. Það eina sem við vitum um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi fjármálakerfið er að það stendur hugsanlega til að móta stefnu síðar þegar skrifuð hefur verið svokölluð hvítbók og umræða farið fram um hana. En í millitíðinni er ríkisvaldið að missa þessa stöðu meira og meira úr höndunum og við blasir að það verður sífellt erfiðara að stíga inn í þetta mál, koma því á réttan kjöl og því ekki seinna vænna að taka það fyrir hér í þinginu.