148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

nýting forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum í Arion banka.

47. mál
[16:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka fyrir að þetta mál sé komið á dagskrá, eitt af þingmannamálunum svokölluðu. Mál þetta er lagt fram í annað sinn eins og fram kom hjá talsmanni málsins. Það er ekki að ástæðulausu. Ástæðan fyrir því að það er lagt fram er að tækifærið er núna sem er ekki víst að standi okkur til boða þegar á líður árið.

Mér finnst svolítið athyglisvert, herra forseti, að það er ekki einn einasti Framsóknarmaður í salnum. Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á það í síðustu kosningabaráttu að endurskipuleggja einmitt bankakerfið. Ekki einn einasti þingmaður flokksins er núna hér til að taka þátt í þessari umræðu eða hlusta. Og ég held ekki einn einasti Sjálfstæðismaður heldur. Kannski eru þeir búnir að gefa það upp á bátinn að fá eitthvað út úr þessu öllu saman. En ég vil þakka þingmönnum Vinstri grænna, sem er stjórnarflokkur, sem hér eru, þakka þeim fyrir að vera í salnum, sem og auðvitað öllum öðrum og Helga Hrafni Gunnarssyni líka. Þá ætla ég ekki að telja fleiri upp.

Málið er grafalvarlegt. Hér er einstakt tækifæri sem við höfum til þess að taka bankakerfið í raun allt í hendur ríkisins og endurskipuleggja það. Byrjum á því, skrifum svo bækur. Byrjum á því að nýta tækifærið sem er núna, förum svo í að búa til hvítbókina til að vinna úr því. Það þarf enga bók til að segja okkur að við stöndum frammi fyrir ákveðnum tækifærum, það þarf ekki að skrifa bók núna. Það kemur fram í þingsályktunartillögunni. Mér vitanlega hefur það ekki breyst að núna er tækifærið samkvæmt árshlutareikningi eða ársreikningi bankans fyrir árið 2016, að nýta þetta tækifæri. Ég velti fyrir mér þegar ársreikningur 2017 verður gerður upp hvort sagan verði sú sama eða hvort menn ætli þá að segja: ja, bíddu, þetta lagaðist eitthvað eða breyttist, það er því ekki hægt að nota þetta. En tækifærið er núna. Það er á morgun eða á milli jóla og nýárs. Menn eiga að kveða upp úr með þetta. Ekki vera með þetta hálfkák sem einhvern veginn virðist vera núna hjá blessaðri ríkisstjórninni. Alla vega er lítið um skýra stefnu eða ákveðin svör þar.

Það kemur líka fram í þingsályktunartillögunni okkar sem einhverjir hafa verið að reyna að snúa út úr, orða það þannig. Ég veit að í kosningabaráttunni gerðu Sjálfstæðismenn svolítið lítið úr þessu, þeir sögðu: Hvernig á að borga fyrir þetta? Hvenær í ósköpunum á að borga fyrir þennan forkaupsrétt?

Það er nú bara þannig að vegna skulda slitabús Arion banka við ríkið og stöðugleikaskilyrðanna þá þarf ekki að greiða, það þarf ekki að reiða fram fé með þessum hætti sem var reynt að telja fólki trú um í kosningabaráttunni. Það er dauðafæri núna til að nýta þennan forkaupsrétt og ná þannig að búa til efnisyfirlitið í þessa bók sem á að skrifa. Ég veit ekki hvað mönnum gengur til í ríkisstjórninni ef þetta á ekki að nýta núna. Ég segi nú ekki annað.

Virðulegi forseti. Það er enn þá möguleiki fyrir Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn að taka þátt í umræðunni ef þeir hafa einhvern áhuga á að endurskipuleggja bankakerfið.